Í greinargerð frumvarpsins, sem útbýtt var á Alþingi í gær, segir að áhrif gjaldtökunnar á vísitölu neysluverðs séu talin óveruleg. Nefnd eru dæmi um að gjaldið muni nema 4.800 krónum á ári af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 60 milljónir króna og 8.000 krónum á ári af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 100 milljónir króna.
Í frétt Stöðvar 2 árið 2014 um slíka eyrnamerkta sérskatta kom fram að þeir höfðu sterka tilhneigingu til að verða varanlegir og verða bandorminum svokallaða að bráð, það er sérlögum sem jafnan fylgja fjárlögum þar sem kveðið er á um með „þrátt fyrir“ ákvæði að tekjurnar skuli að hluta eða að öllu leyti renna í ríkissjóð.
Landsmenn sem komnir eru á efri ár muna eflaust margir eftir því að í Heimaeyjargosinu árið 1973 hækkaði ríkisstjórnin söluskatt „tímabundið“ um tvö prósentustig til endurreisnar í Eyjum. Þegar henni lauk var ákveðið að skatturinn skyldi bara halda áfram og renna framvegis í ríkissjóð.

Hið nýja forvarnagjald, sem núna er áformað, er samskonar ofanflóðagjaldinu sem núna er lagt á fasteignaeigendur til að kosta gerð varnargarða vegna ofanflóða. Í frétt vestfirska héraðsmiðilsins Bæjarins besta síðastliðið sumar kom fram að nærri sextíu prósent tekna af ofanflóðagjaldi, sem innheimt var á árunum 2009 til og með 2019, runnu beint í ríkissjóð og var ekki varið til ofanflóðavarna, eins og mælt er fyrir um í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
Í fréttinni var vitnað til skriflegs svars á Alþingi frá árinu 2021 við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar. Þar kom fram að á árunum 2009 til 2019 námu tekjur af ofanflóðagjaldinu um 22,5 milljörðum króna. Af þeim fóru aðeins um 9,8 milljarðar króna til framkvæmda við varnargarða. Mismunurinn, um 12,7 milljarðar króna, rann í ríkissjóð.
Í frétt Stöðvar 2 fyrir níu árum voru auk Heimaeyjarskattsins nefnd dæmi eins og Fríhafnargjald, sem átti að fara til uppbyggingar ferðamannastaða, en hvarf að mestu í hítina, aukaskattur á bensín, sem átti að fjármagna vegagerð, en FÍB kallaði skattrán þegar ríkisstjórnin setti peningana í annað, og Þjóðarbókhlöðuskatturinn, sem hélst á löngu eftir að búið var að byggja húsið. Einnig sérstök hækkun tryggingagjalds í hruninu til að mæta átta prósenta atvinnuleysi. Þótt atvinnulausum fækkaði niður í þrjú prósent lækkaði skatturinn ekki að sama skapi.
Sú ályktun var dregin í fréttinni að skattar sem byrja sem fagrar umbúðir um göfug markmið hafa sterka tilhneigingu til að verða ný skattheimta í þágu ríkissjóðs.
Hér má rifja upp dæmi um sérskatta sem orðið hafa bandorminum að bráð: