Innlent

Öflugur jarð­skjálfti

Kolbeinn Tumi Daðason og Árni Sæberg skrifa
Skjálftinn átti upptök sín nærri Sýlingafelli, sem sjá má vinstra megin á myndinni. Grindavíkurbær er í forgrunni.
Skjálftinn átti upptök sín nærri Sýlingafelli, sem sjá má vinstra megin á myndinni. Grindavíkurbær er í forgrunni. Vísir/Vilhelm

Nokkuð öflugur jarðskjálfti reið yfir á suðvesturhorninu um korter í eitt. Skjálftinn var af stærðinni 4,1.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir í samtali við fréttastofu að búið sé að leggja mat á stærð skjálftans. Upptök hans hafi verið nálægt Sýlingafelli á Reykjanesi á fimm kílómetra dýpi.

Hann hafi fundist vel í höfuðstöðvum Veðurstofunnar í Reykjavík og að hún reikni með því að hann hafi fundist víðar á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel norðar.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að nokkuð þétt jarðskjálftahviða hafi hafist um klukkan 07 í morgun á þessum slóðum og tæplega 800 skjálftar hafi mælst þar frá miðnætti, þar af níu af stærð þrír eða stærri.

Jarðskjálftahviður hafi verið viðvarandi síðan landris hófst 27. október við Þorbjörn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Veðurstofa Íslands




Fleiri fréttir

Sjá meira


×