Ármann Árnason varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja segir að sjúkrabíll og slökkvibíll hafi verið sendir á vettvang þegar tilkynning barst rétt fyrir klukkan hálf níu í morgun. Tengivagninn hafði farið á hliðina en bíllinn valt ekki. Engra aðgerða af hálfu þeirra var því þörf.
Ármann segir fljúgandi hálku á öllum vegum á Reykjanesinu og stórvarasamt af þeim sökum. Unnið verður að því að koma tengivagninum aftur í flutningabílinn í dag.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að í dag verði suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, skýjað með köflum og sums staðar skúrir eða él, en léttir til á Norður- og Austurlandi. Snýst í austlæga átt, 5-10 m/s á morgun, en 10-15 m/s sunnantil seinnipartinn. Dálítil rigning, slydda eða snjókoma öðru hverju á vestanverðu landinu, en þurrt eystra.
Hiti 0 til 6 stig sunnan- og vestanlands að deginum, en annars vægt frost.