Fótbolti

Fleiri horfðu á Glódísi Perlu og fé­laga en á NFL leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggosdóttir og enska landsliðskonan Georgia Stanway fagna saman sigri Bayern München á VfL Wolfsburg.
Glódís Perla Viggosdóttir og enska landsliðskonan Georgia Stanway fagna saman sigri Bayern München á VfL Wolfsburg. Getty/Sebastian Widmann

Tveir stórir leikir fóru fram á sunnudaginn í Þýskalandi og það kemur kannski einhverjum á óvart hvor þeirra fékk meira áhorf í þýsku sjónvarpi.

Þjóðverjar tóku að sér að vera gestgjafar á stórleik Kansas City Chiefs og Miami Dolphins í NFL-deildinni en leikurinn fór fram í Frankfurt. Þarna mættust tvö af bestu liðum deildarinnar.

Chiefs komst yfir í 21-0 í leiknum og vann hann að lokum 21-14. Leikurinn fór fram á besta tíma í Þýskalandi þótt að hann hafi verið snemma að bandarískum tíma.

Sama dag fór fram toppslagur Bayern München og Wolfsburg í þýsku kvennadeildinni sem var gríðarlega mikilvægur leikur í baráttunni um titilinn.

Bayern hefur unnið tvo af síðustu þremur titlum en Wolfsburg vann titilinn 2022 og svo fjögur ár í röð frá 2017 til 2020. Ekkert annað félag hefur unnið þýsku kvennadeildina undanfarin áratug.

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í vörn Bayern sem vann leikinn 2-1. Linda Dallmann og Klara Buhl komu liðinu í 2-0 en Lena Oberdorf minnkaði muninn í seinni hálfleiknum.

Niðurstöður á sjónvarpsáhorfi á leikina tvo eru komnar í hús og Asif Burhan á Forbes fékk að birta þær. Þar kom í ljós að fleiri horfðu á Glódísi Perlu og félaga en á NFL leikinn sem er vissulega mjög athyglisvert.

Alls horfðu 1,55 milljónir á kvennaleikinn á ZDF stöðinni en á móti horfðu bara 1,34 milljónir á NFL-leikinn á RTL sjónvarpsstöðinni.

Þetta er enn eitt dæmið um í hversu mikilli sókn kvennafótboltinn er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×