Maðurinn var á gangi í Reynisfjalli þegar hann féll í klettunum. Að sögn yfirvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi eru fyrstu viðbragðsaðilar að koma að manninum.
Erfitt reyndist að ná til hans vegna staðsetningar og var það metið sem svo að nauðsynlegt væri að kalla út þyrlu. Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir í samtali við fréttastofu að líðan mannsins sé betri en talið var í fyrstu. Meiðslin hafi blessunarlega verið minna alvarleg.
Fimm banaslys hafa orðið í Reynisfjöru síðustu sex ár. Ferðamenn virðast oft ekki gera sér grein fyrir sterkum hafstraumum og fréttir berast reglulega af stórhættulegum uppátækjum.
Fréttin hefur verið uppfærð.