Innlent

Aðstoðarmaður Ásmundar í tímabundið leyfi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sóley mun ekki aðstoða Ásmund í nokkra mánuði, en ekki verður annar ráðinn í staðinn fyrir hana.
Sóley mun ekki aðstoða Ásmund í nokkra mánuði, en ekki verður annar ráðinn í staðinn fyrir hana. Samsett/Arnar/Stjórnarráðið

Sóley Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra, fer í tímabundið leyfi frá störfum frá fyrsta nóvember. Leyfinu mun ljúka þann 30. apríl á næsta ári.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins, en þar kemur fram að Sóley muni á þessum tíma leiða verkefni Skálatúns, sem er sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna. Eignir Skálatúns eru í Mosfellsbæ.

Þá segir að ekki verði ráðinn annar aðstoðarmaður í stað Sóleyjar á þessum tíma og að Teitur Erlingsson, sem starfar líka sem aðstoðarmaður Ásmundar, muni halda áfram störfum.

„Mikil uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu er varðar þjónustu í þágu barna og fjölskyldna sem felur m.a. í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar geti verið staðsettir á sama svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

„Tilgangurinn er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×