Fótbolti

Neuer spilar á morgun eftir tíu mánaða fjarveru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manuel Neuer hefur ekki spilað með Bayern München í tæpt ár.
Manuel Neuer hefur ekki spilað með Bayern München í tæpt ár. getty/Alexander Hassenstein

Eftir að hafa verið frá keppni í rúma tíu mánuði er Manuel Neuer, markvörður Bayern München, tilbúinn í slaginn á ný og mun væntanlega spila um helgina.

Neuer fótbrotnaði í skíðaferð eftir HM í Katar og hefur ekkert spilað síðan þá. Síðasti leikur hans fyrir Bayern var 12. nóvember síðastliðinn.

Neuer byrjaði að æfa aftur í seinni hluta september og er nú loksins tilbúinn að spila á nýjan leik. Bayern mætir Darmstadt í þýsku úrvalsdeildinni á morgun og Neuer mun væntanlega standa á milli stanganna hjá meisturunum þá.

„Ef allt gengur vel á æfingum spilar hann á morgun. Hann hlakkar til þess og við líka,“ sagði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Bayern, á blaðamannafundi í dag.

Sven Ulreich hefur staðið vaktina í marki Bayern í fjarveru Neuers en fær sér væntanlega sæti á varamannabekknum á morgun.

Bayern er í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með tuttugu stig, tveimur stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×