Körfubolti

Valsmenn geta unnið fimmta leikinn í röð í Síkinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Lawson lék með Val undanfarin tvö tímabil en er nú kominn í Tindastól.
Callum Lawson lék með Val undanfarin tvö tímabil en er nú kominn í Tindastól. Vísir/Hulda Margrét

Fjórða umferð Subway deildar karla í körfubolta lýkur í kvöld með risaleik Íslandsmeistara Tindastóls og bikarmeistara Vals í Síkinu á Sauðárkróki. Það er óhætt að Valsmönnum hafi gengið vel í Síkinu síðustu tólf mánuði.

Tindastóll og Valur hafa mæst í mögnuðum lokaúrslitum undanfarin tvö tímabil og úrslitin réðust í oddaleik í bæði skiptin. Stólarnir unnu Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor en án þess þó að vinna heimaleik í einvíginu á móti Vals.

Valsmenn sóttu líka sigur á Krókinn í Meistarakeppni KKÍ í upphafi tímabilsins og unnu einnig deildarleik sinn á Sauðárkróki á síðustu leiktíð.

Nú er því staðan sú að Valsmenn hafa unnið fjóra síðustu leiki sína í Síkinu og alla leiki sína á Króknum frá og með júní 2022. Sautján mánaða tak.

Tindastóll hefur aðeins tapað sex heimaleikjum á þessum sautján mánuðum og því hafa 67 prósent þessa tapleikja í Síkinu komið á móti Val.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19.00 og strax á eftir verður öll umferðin gerð upp í Subway Körfuboltakvöldi.

  • Síðustu leikir Tindastóls og Vals í Síkinu á Sauðárkróki
  • 24. september 2023: Valur vann með 8 stigum, 80-72 [Meistarakeppnin]
  • 15. maí 2023: Valur vann með 13 stigum, 82-69 [Úrslitakeppni]
  • 9. maí 2023: Valur vann með 13 stigum, 100-87 [Úrslitakeppni]
  • 29. desember 2022: Valur vann með 6 stigum, 84-78 [Deildarkeppni]
  • 15. maí 2022: Tindastóll vann með 2 stigum, 97-95 (83-83) [Úrslitakeppni]
  • -
  • Töp Tindastóls í Síkinu á Sauðárkróki frá október 2022:
  • 4 tapleikir á móti Val (4 leikir)
  • 2 tapleikir á móti öllum öðrum liðum (15 leikir)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×