Sandra María undirbýr sig nú af kappi fyrir komandi leiki íslenska kvennalandsliðsins í Þjóðadeild Evrópu. Er þar um að ræða tvo heimaleiki, gegn Dönum á föstudaginn kemur og Þjóðverjum á þriðjudaginn í næstu viku.
Tímabilinu hér heima er lokið og hefur Sandra María haldið sér við með því að æfa með 2. flokki karla heima á Akureyri.
„Eftir að tímabilinu hér heima lauk byrjaði ég á því að taka mér viku í pásu,“ segir Sandra María í samtali við Vísi. „Ég er með pínu hnjask á hnénu og því var það best fyrir mig og landsliðið að ég myndi taka mér smá tíma í að jafna mig. Eftir það fékk ég að æfa með 2.flokki karla fyrir norðan. Það hjálpaði mér mikið og er sennilega eitthvað sem ég mun gera meira með áfram.
Svo fer meistaraflokkur Þór/KA náttúrulega að koma aftur saman fljótlega. Ég tel það bara gott fyrir mig persónulega sem og landsliðið að ég fái að æfa aðeins áfram með strákunum, þar sem að ég hef minni tíma á boltanum er æfi með sterkari leikmönnum. Ég held að ég geri það.“
Sandra María átti skínandi gengi að fagna á síðasta tímabili með Þór/KA þar sem að hún skoraði meðal annars átta mörk í nítján leikjum og var með betri leikmönnum deildarinnar.
Núna eru margir orðrómar á kreiki varðandi þína framtíð. Hvernig horfir framtíðin við þér? Eru lið að bera í þig vígjurnar?
„Þetta er þessi tímapunktur árs þar sem allir eru að pæla í því hvað maður ætlar að gera, hver stefnan sé. Það er eðlilegt. Ég að sjálfsögðu verð að skoða alla þessa hluti vel og taka alla anga með í jöfnuna.
Sjá hvað sé best fyrir mig og mína fjölskyldu að gera. Ég byrja bara á því að skoða hvað sé í boði, vega og meta alla kosti og galla við hvert tilboð sem kemur upp á borðið. Svo verð ég að taka sameiginlega ákvörðun með fjölskyldunni.“
Þannig að þú finnur fyrir klárum áhuga frá öðrum liðum á að fá þig til liðs við sig?
„Já ég hef alveg fundið fyrir smá áhuga núna og er einnig að vinna með mínum umboðsmanni að því að skoða kosti erlendis. Þannig að maður er bæði að skoða kosti hérna heima en líka fyrir utan landssteinana. Maður er bara algjörlega með opna bók og opinn hug fyrir öllu. Skoða allt sem kemur upp á borðið.“