Viðskipti innlent

Stóru við­skipta­bankarnir þrír lokaðir á morgun

Jón Þór Stefánsson skrifar
Landsbankinn, Íslandsbanki, og Arion banki munu loka útibúum sínum vegna kvennaverkfallsins.
Landsbankinn, Íslandsbanki, og Arion banki munu loka útibúum sínum vegna kvennaverkfallsins. Vísir

Landsbankinn og Íslandsbanki munu loka útibúum sínum um allt land vegna kvennaverkfallsins á morgun. Fyrr í dag var greint frá því að Arion banki myndi loka af sömu ástæðu. Þar af leiðandi verða útibú stóru viðskiptabankanna þriggja lokuð.

Í tilkynningu á vef Landsbankans er bent á að 81 prósent starfsfólks bankans séu konur og að margar þeirra muni taka þátt í verkfallinu á morgun og leggja niður störf allan daginn.

Útibú og afgreiðslur bankans verði því lokaðar en þjónustuver og netspjall á vef bankans verði opið, en fáliðað.

Samskonar tilkynningu er að finna á vef Íslandsbanka. „Íslandsbanki leggur sig fram um að styðja starfsfólk sitt sem kýs að taka þátt í þessum baráttudegi kvenna, en vekur um leið athygli viðskiptavina á því að aðgerðirnar koma til með að hafa nokkur áhrif á þjónustustig bankans,“ segir þar.

Þó verður eitt útibú Íslandsbanka opið, en það er í Norðurturni í Kópavogi. Þá er tekið fram að einhver þjónusta bankans verði opin, en að búast megi við meiri bið eftir þjónustu.

Fyrr í dag var greint frá því að útbúum Arion-banka yrði lokað vegna verkfallsins. Í yfirlýsingu bankans kom fram að sextíu prósent starfsfólks bankans væru konur.

„Með því að leggja niður störf taka þær þátt í kvennaverkfallinu og mótmæla vanmati á störfum kvenna ásamt kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum,“ sagði í tilkynningunni þar sem jafnframt er fullyrt að bankinn styðji umrætt framtak og muni því loka öllum útibúum bankans.

Þá kom fram að þjónustuver bankans verði opið, en fáliðað og að þjónusta verði því skert og að það sama megi segja um netspjall og samskipti gegnum tölvupóst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×