Fótbolti

Diljá Zomers orðin markahæst í Belgíu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Diljá Ýr Zomers, leikmaður Leuven í Belgíu.
Diljá Ýr Zomers, leikmaður Leuven í Belgíu.

Diljá Ýr Zomers, íslensk landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður OH Leuven í Belgíu er orðin markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar þar í landi eftir að hafa skorað tvö mörk í 8-1 sigri liðsins gegn Charleroi. 

Mörkin byrjuðu að hrynja inn strax á 3. mínútu leiksins þegar leikmaður Charleroi kom boltanum í eigið net. Þrisvar til viðbótar fór boltinn svo í netið áður en Diljá skoraði fimmta og sjötta mark leiksins, rétt fyrir hálfleiksflaut og svo skömmu eftir að seinni hálfleikur hófst. 

Þetta var sjötta mark Diljáar í aðeins fjórum spiluðum leikjum á tímabilinu, hún gekk til liðs við félagið frá Norrköpping í sumar og er strax orðin efst í baráttunni um gullskóinn ásamt Davinu Vanmechelen, framherja Club Brugge. 

Leuven liðið er ósigrað í efsta sæti deildarinnar, með 19 stig eftir 7 leiki. Þær mæta svo ríkjandi deildarmeisturum úr Anderlecht í næstu umferð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×