Fótbolti

Rapparinn 50 Cent styrkir lið fjór­tán ára fót­bolta­stelpna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Curtis „50 Cent“ Jackson III hjálpaði fjórtán ára fótboltastelpum frá Wales.
Curtis „50 Cent“ Jackson III hjálpaði fjórtán ára fótboltastelpum frá Wales. Getty/Johnny Nunez

Bandaríski rapparinn 50 Cent er eflaust ekki sá fyrsti sem þér dettur í hug þegar fjórtán ára fótboltastelpur í Wales þurfa á fjárhagsstuðningi að halda fyrir liðið sitt.

50 Cent er engu að síður styrktaraðili velska stúlknaliðsins AFC Rumney. Í liðinu eru stelpur fjórtán ára og yngri en félagið er frá Cardiff.

Einn af pöbbum stelpnanna vann með rapparanum á síðasta tónleikaferðalagi hans og var hvattur til að spyrja 50 Cent um það hvort hann gæti styrkt liðið.

50 Cent var klár í það og hefur komið sér í fréttirnar fyrir það. „Ég bjóst við að fá nei en þegar hann sagði já þá kom það mikið á óvart og við vorum mjög þakklát,“ sagði þjálfarinn Richie Brown.

50 Cent reddaði útibúningum á allt liðið og seinna gerði hann betur og borgaði fyrir utanyfirgallana líka.

50 Cent heitir fullu nafni Curtis James Jackson III en hann er orðinn 48 ára gamall.

Hann toppaði með lögunum „In da Club“ og „Candy Shop“ en hann hefur selt yfir þrjátíu milljónir platna á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×