Sport

Heims­met: 35 sekúndum frá því að hlaupa mara­þon undir tveimur ­tímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelvin Kiptum eftir að hafa hlaupið maraþon hraðar en allir í sögunni og tryggt sér sigur í Chicago maraþoninu.
Kelvin Kiptum eftir að hafa hlaupið maraþon hraðar en allir í sögunni og tryggt sér sigur í Chicago maraþoninu. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Keníamaðurinn Kelvin Kiptum stórbætti heimsmetið í maraþoni í gær þegar hann vann Chicago maraþonið með miklum glæsibrag.

Kiptum kom í mark á tveimur klukkutímum og 35 sekúndum en með því bætti hann heimsmet landa síns Eliud Kipchoge um meira en þrjátíu sekúndur.

Þetta þýðir líka að Kiptum var aðeins 35 sekúndum frá því að hlaupa heilt maraþon á undir tveimur klukkustundum.

Kiptum hafði áður sett nýtt mótsmet í London maraþoninu fyrr á þessu ári.

Kiptum talaði um það eftir hlaupið að hann hafi ekki planað að reyna að slá gamla heimsmetið sem var tveir klukkutímar, ein mínúta og níu sekúndur. Hann sá hins vegar að metið var möguleiki á síðustu kílómetrunum í hlaupinu.

„Ég er svo ánægður. Ég var ekki undirbúinn fyrir þetta. Heimsmet var ekki í huga mér í dag. Ég viss samt að einn daginn myndi ég slá heimsmetið,“ sagði Kelvin Kiptum eftir hlaupið.

Kiptum kom í mark þremur mínútum og 27 sekúndum á undan næsta manni sem var Benson Kipruto sem er líka frá Kenía.

Kiptum stakk endanlega af eftir 35 kílómetra. „Ég sá tímann fyrir framan mig og hugsaði: Ég ætla að reyna við metið. Kannski næ ég að hlaupa undir tveimur klukkustundum,“ sagði Kiptum.

Hann er bara 23 ára gamall og þetta var bara þriðja maraþonhlaupið hans á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×