Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Njarðvík 49-72 | Njarðvík burstaði Hauka að Ásvöllum

Siggeir Ævarsson skrifar
Keira Robinson var eini leikmaður Hauka sem náði í tveggjastafa tölu í stigaskori í dag
Keira Robinson var eini leikmaður Hauka sem náði í tveggjastafa tölu í stigaskori í dag Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík vann afar sannfærandi 72-49 sigur þegar liðið sótti Hauka heim í Ólafssal á Ásvelli í þriðju umferð Subway-deildar kvenna í dag.

Njarðvíkingar lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik en gestirnir leiddu með 15 stigum, 25-40, þegar liðin héldu til búningsklefa. Haukar voru seinir í gang og voru jafnvel dauflegri í 2. leikhluta en þeim fyrsta. Skotnýtningin léleg og Njarðvík að rífa niður töluvert meira af fráköstum

Haukarnir vöknuðu vissulega aðeins til lífsins í seinni hálfleik og náðu að herða vörnina vel, en Njarðvík skoraði aðeins tvær körfur utan af velli í leikhlutanum af þeim ellefu stigum sem þær settu á töfluna. Eftir þokkalegan þriðja leikhluta var þó eins og sá litli neisti sem hafði kveiknað slökknaði og Njarðvíkingar tóku leikinn aftur í sínar hendur.

Haukar voru að hitta illa, þá sérstaklega undir körfunni og brenndu af mörgum mikilvægum færum þegar líða fór á leikinn. Það verður ekki af Njarðvíkingum tekið að þær spiluðu góða vörn og sóknin rúllaði vel ef frá er talinn þriðji leikhluti.

Emile Sofie Hesseldal var algjörlega mögnuð í liði gestanna, aðeins einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu, sem hefði örugglega komið í hús ef liðið hefði skoraði eitthvað utan af velli í þriðja leikhluta.

Öruggur og sanngjarn sigur Njarðvíkur niðurstaðan í Ólafssal í dag.

Af hverju vann Njarðvík?

Þrátt fyrir að Hesseldal hafi dregið vagninn þá fengu Njarðvíkingar tíu stig eða meira frá fimm leikmönnum. Liðssigur sem byggði á góðum varnarleik og einföldum en öruggum sóknarleik.

Hverjar stóðu upp úr?

Hesseldal skilaði tröllatvennu í hús, 20 stig og 20 fráköst, og vantaði eina stoðsendingu upp á þrefalda tvennu. Þá var Ena Viso einnig drjúg, 14 stig, tólf fráköst og fimm stoðsendingar frá henni.

Keira Robinson var í sérflokki í stigaskori hjá Haukum með 21 stig og 14 fráköst en enginn annar leikmaður Hauka komst í tveggjastafa tölu í stigaskori.

Hvað gekk illa?

Það gekk fátt vel hjá Haukum í dag. Þær virtust varla mættar til leiks í upphafi og andleysið var algjört.

Hvað gerist næst?

Njarðvíkingar taka á móti grönnum sínum úr Grindavík á þriðjudaginn en Haukar sækja Blika heim sama kvöld.

Ingvar: „Mér fannst algjört andleysi einkenna okkur“

Ingvar Guðjónsson stýrði liði Hauka í dag í fjarveru Bjarna MagnússonarVísir/Bára Dröfn

Ingvar Guðjónsson, aðstoðarþjálfari Hauka sem stýrði liðinu í dag í fjarveru Bjarna Magnússonar, tók undir orð blaðamanns um að Haukar hefðu hreinlega ekki mætt til leiks í dag.

„Það er alveg rétt og ég er gríðarlega vonsvikinn. Mér fannst algjört andleysi einkenna okkur. Varnarleikurinn hjá okkur lengstum lélegur og sjálfstraustið í sókninni lítið. Boltaflæðið ekki nóg og við höfðum lítið sjálfstraust í skotunum.“ 

„Við glímdum aðeins við þetta í Valsleiknum líka. Skutum illa þar en spiluðum frábæran varnarleik sem tryggði okkur sigurinn en núna var alveg sama hver setti boltann í gólfið hjá þeim. Þær komust upp að körfunni og gátu gert það sem þær vildu.“

Það lifnaði aðeins yfir Haukum í þriðja leikhluta en það vantaði töluvert meira en herslumuninn upp á í dag.

„Vörnin varð betri í seinni hálfleik, sérstaklega á löngum köflum í þriðja leikhluta en sóknin hún bara kom aldrei í dag. Við vorum staðar og lítið boltaflæði. Í seinni hálfleik fannst mér sóknin lagast, fannst við fá opnari skot og betri tækifæri en sjálfstraustið var jafn lítið þannig að við settum ekkert af þessum skotum niður. Við létum það fara of mikið í hausinn á okkur og tókum það svo með okkur til baka í vörnina í fjórða og þá áttum við í rauninni ekki séns.“

Keira Robinson og Lovísa Björt Henningsdóttir voru báðar í töluverðum villuvandræðum í dag en Ingvar sagði að það hefði þó ekki ráðið úrslitum að þessu sinni.

„Það var alls ekki ástæðan fyrir þessu andleysi og því að við vorum ekki að hitta. Það voru einhverjar aðrar dýpri rætur sem voru upptökin að því en auðvitað hjálpar það aldrei til að vera í villuvandræðum.“

Ingvar sagði þó ekkert svartnætti yfir í Hafnarfirðinum.

„Alls ekki. Við töluðum um það eftir Valsleikinn líka að við yrðum áfram í einhverju basli, sérstaklega sóknarlega. Við erum að reyna að innleiða nýtt „system“ og við sjáum að það er óöruggi hjá okkur og það tekur bara tíma að „drilla“ þetta og koma þessu inn þannig að þetta verði mönnum eðlislægt og þægilegt. En það er aðallega varnarleikurinn sem ég er ósáttur með og andleysið.“

Emilie: „Þessi leikur sýnir svart á hvítu að við erum mættar til leiks“

Emile Sofie Hesseldal átti sannkallaðan stórleik í dag. Hún leit oft líta út fyrir eins og hún þyrfti ekkert að hafa fyrir hlutunum í dag og staðfesti það í viðtali eftir leik.

„Mér leið reyndar þannig í dag að ég þyrfti að hafa aðeins minna fyrir hlutunum en í síðustu leikjum. Mér fannst við taka réttar ákvarðanir í dag á réttum augnablikum. Að vera einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu er ekki eitthvað sem ég hugsa mikið um. Ég held að ég hafi tekið réttar ákvarðanir í þessum leik sem skilaði þessum tölum á skýrsluna.“

Emile sagði að sjálfstraustið hjá Njarðvíkingum væri í botni um þessar mundir og þessi sigur sýndi að liðinu væri alvara.

„Þessi leikur sýnir svart á hvítu að við erum mættar til leiks. Við lögðum eitt af sterkustu liðunum en við erum bara rétt að byrja. Það vilja öll lið vinna okkar og næsti leikur gegn Haukum verður örugglega erfiður því þær eru með virkilega sterkt lið. En við erum fullar af sjálfstrausti og vitum að við getum unnið í ákveðnum þáttum og gert enn betur.“

Rúnar Ingi þjálfari Njarðvíkur hefur sagt það oftar en einu sinni í vetur að Emile sé ekki komin í sitt besta hlaupaform og eigi enn meira inni. Getum við búist við að hún komi með 30/30 leik þegar líður á tímabilið?

„Það verður að koma í ljós!“ - Sagði Emilie að lokum hlæjandi og hrópaði svo á Rúnar Inga þjálfari sinn þegar hún gekk í burtu: „Coach! Did you say I wasn't in shape!“, eða „Þjálfari! Sagðir þú að ég væri ekki í formi!“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira