Breiðablik er eins og er í öðru sæti deildarinnar sem gefur Evrópusæti en þær eru að fara að mæt Íslandsmeisturum Vals á þeirra heimavelli.
Valskonur eru fyrir löngu búnar að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn en Breiðablik hefur tveggja stiga forskot á Stjörnuna í baráttunni um annað sætið. Stjarnan tekur á móti Þrótti á sama tíma og gæti tryggt sér Evrópusæti með sigri.
„Það segir sig sjálft og við komumst ekki hjá því að segja að þetta er úrslitaleikur um það hvort við náum Evrópusæti eða ekki. Stærri verða leikirnir ekki hjá okkur,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson í ákalli á miðlum Breiðabliks.
„Liðið er búið að lenda í alls konar mótlæti og veseni í allt sumar. Við erum að skríða saman og við höfum mikla trú á okkur að við getum gert frábæra hluti í síðasta leiknum,“ sagði Gunnleifur.
„Það býr svo mikið í þessum stelpum og þessum leikmönnum. Stundum finnst mér stelpurnar ekki fatta hversu góðar þær eru,“ sagði Gunnleifur.
„Á morgun (í dag) ætlum við að ná því allra besta út úr öllum. Ekki bara þeim ellefu leikmönnum sem eru inn á vellinum heldur frá öllum þeim sem eru á bekknum og þeim sem eru utan hóps og öllu starfsliðinu,“ sagði Gunnleifur.
„Þá viljum við fá fólkið okkar af því að við erum stærsta félagið. Við erum með stórkostlegt fólk í félaginu og það skiptir okkur svo miklu máli að fólkið mæti og styðji liðið okkar og stelpurnar. Það væri svo frábært að enda þetta á góðum nótum,“ sagði Gunnleifur eins og sjá má hér fyrir ofan.
Valur tekur á móti Breiðabliki klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport 5 og Stjarnan fær Þrótt í heimsókn á sama tíma en sá leikur verður sýndur á Bestu deildar stöðinni. Lokaumferðin hefst klukkan 15.45 þegar FH fær Þór/KA í heimsókn en sá leikur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Helena mun síðan gera upp lokaumferðina og allt mótið í Bestu mörkunum klukkan 20.00 á morgun á Stöð 2 Sport.