Innlent

Styrkja rann­sóknir og efla eftir­lit með lagar­eldi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra birti í dag fyrstu heildstæðu stefnuna um uppbyggingu og umgjörð lagareldis.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra birti í dag fyrstu heildstæðu stefnuna um uppbyggingu og umgjörð lagareldis. Vísir/Arnar

Fyrsta heildstæða stefnan um uppbyggingu og umgjörð lagareldis hefur nú verið birt. Efla á eftirlit og rannsóknir. Leyfishafar munu greiða gjald fyrir afnot af auðlindum. Ráðherra segir gott að fá heildstæða stefnu þrátt fyrir ólíka stöðu hverrar greinar.

Stefna ráðherra nær til ársins 2040 og fjallar um sameiginlega framtíðarsýn og markmið fyrir allar undirgreinar lagareldis, en það eru sjókvíaeldi, landeldi, úthafseldi og þörungarækt. Um er að ræða drög sem eru í samráðsferli en stefnt er að því að leggja fram frumvarp á þessum þingvetri.

Margt nýtt kemur fram í stefnunni en sem dæmi segir að leyfishafar muni greiða gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum sem á að skila tekjum til að standa undir stjórnsýslu, rannsóknum og vöktun málaflokksins auk innviðauppbyggingar sem honum fylgir. Gjaldið verður tengt afkomu og heimsmarkaðsverði. Gjaldinu verður skipt á milli ríkis og sveitarfélaga.

Herða eftirlit og kröfur

Stefnan er nokkuð ítarlegri hvað varðar sjókvíaeldi en það er aðeins vegna þess að greinin er komin lengst. Fram kom á kynningarfundi matvælaráðherra að það sama eigi svo að gilda um allar greinar en sem dæmi á að efla eftirlit töluvert.

„Við erum að herða umtalsvert kröfurnar og segja að við höfum ekki þolinmæði eða úthald gagnvart því að það séu umtalsverð frávik. Sama hvort það er í stroki, lús eða öðrum þáttum. Þannig nú erum við að skýra mjög vel ramman utan um greinina,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, að loknum fundi.

Áhersla á strok

Hún segir stóra málið núna vera strok og hversu afgerandi viðbrögðin eigi að vera.

„Í þessum drögum gerum við ráð fyrir því að viðbrögð verði mjög eindregin og hafi beinlínis áhrif á þær heimilir sem fyrirtækin hafa.“

Skýrt kemur fram í stefnunni að skilgreina eigi svæði sem megi vera með eldi á og hversu margir megi starfa á hverju svæði. Einhverjir rekstraraðilar munu þurfa að færa sig um set.

„Þetta er auðvitað ekki alveg nýtt fyrir þessum rekstraraðiðum sem finna fyrir því í sínu daglega starfi að það getur verið óheppilegt að deila svæði með öðrum aðila. Þannig við höfum ákveðin aðlögunartíma til að aðlagast því.“

Drögin að stefnunni eru nú aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Kynnir stefnumótun um lagareldi

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun í dag kynna drög að nýrri stefnumótun lagareldis sem unnin hefur verið á vegum matvælaráðuneytisins. Kynningin verður haldin í Club Vox sal á 1. hæð Hilton Reykjavík Nordica miðvikudag klukkan hálf ellefu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×