Veiga kom fram í viðtali við Heimildina í dag þar sem hún skaut á orðróminn um að karlmaður hefði baðað sig í kvennaklefanum meðan grunnskólastelpur voru í skólasundi, undir því yfirskini að hann skilgreindi sig sem konu.
„Þetta var ég. Ég er ekki með typpi, ég var ekki nakin og ég er ekki karlmaður,“ segir Veiga í viðtalinu.
Þá segist hún hafa látið skólann vita vegna þess að grunnskólastelpurnar höfðu gantast við hana í klefanum, og haldið að málinu yrði þá lokið. Í kjölfarið hefði vefmiðillinn frettin.is birt grein með fyrirsögninni Stúlkubörn í Rimaskóla mættu karlmanni í sturtuklefa Grafarvogslaugar og Eva Hauksdóttir lögmaður birt skoðanagrein á Vísi um málið. Þannig hafi sögusagnirnar dreifst enn fremur.
Hún segist hafa komið fram undir nafni til þess að afsanna þá sögu sem nú gengur milli manna, um að karlmaður hafi farið í kvennaklefann undir því yfirskini að hann skilgreindi sig sem konu.
„Þetta er uppspuni, lygi. Þetta er byggt á hatri, engu öðru,“ segir Veiga í viðtalinu.
Veiga varð ekki við ósk Vísis um viðtal en rætt verður við hana í Bítinu í fyrramálið.