Sport

Lét klippa af sér ermarnar og snéri stórtapi í sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Payton vill greinilega hafa ermarnar stuttar og það hefur augljóslega áhrif á þjálfun hans.
Sean Payton vill greinilega hafa ermarnar stuttar og það hefur augljóslega áhrif á þjálfun hans. AP/Wilfredo Lee

Sean Payton er einn litríkasti og um leið furðulegasti þjálfarinn í NFL-deildinni. Hann sýndi það enn á ný í langþráðum fyrsta sigri liðs hans í NFL-deildinni í gær.

Lærisveinar Paytons í Denver Broncos töpuðu með fimmtíu stigum fyrir viku síðan og höfðu tapað fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu fyrir leik gærkvöldsins.

Útlitið var orðið mjög svart í leiknum í gær enda voru Broncos menn 28-7 undir á móti Chicago Bears þegar aðeins fjórtán sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta.

Payton þurfti að hugsa upp eitthvað til að breyta leiknum og hann byrjaði á sjálfum sér.

Payton lét nefnilega aðstoðarmann sinn klippa af sér ermarnar á peysunni hans. Henti ermunum síðan á jörðina og tók aftur við að þjálfa liðið.

Þetta hafði greinilega frábær áhrif því Denver Broncos liðið skoraði næstu 24 stig í leiknum og vann leikinn 31-28.

Hver hefði vitað að ermar þjálfarans hefðu verið vandamálið og hamlað honum í þjálfun liðsins.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×