KR hefur að litlu nema stolti að keppa í Bestu deildinni þessi dægrin. Liðið er úr leik í Evrópubaráttunni en gat strítt Blikum í sinni baráttu í því sem var lokaleikur KR í Vesturbænum undir stjórn Rúnars Kristinssonar en ákveðið hefur verið að samningur hans við félagið verði framlengdur.
Blikar virtust ætla að taka stigin þrjú úr leiknum því þegar komið var fram í uppbótatíma venjulegs leiktíma stóðu leikar 3-2 fyrir Kópavogsbúa.
Benóný Breki Andrésson náði hins vegar að jafna metin fyrir KR, 3-3, á annarri mínútu uppbótatímans.
Nokkrum andartökum seinna leit svo sigurmarkið dagsins ljós. Þrumufleygur KR-ingsins Luke Rae hafnaði í stönginni en fór þaðan í bak Antons Ara, markvarðar Breiðabliks og endaði í marknetinu.
Dramatíkin allsráðandi og 4-3 sigur KR staðreynd. Vesturbæingar sitja í 6. sæti deildarinnar með 37 stig fyrir lokaumferðina. Breiðablik er með 41 stig í 3.sæti en sigur Vals á FH í gærkvöldi tryggði liðinu Evrópusæti fyrir næsta tímabil.