Íslenski boltinn

Fer fögrum orðum um Arnar og býður hann vel­kominn: „Sigur­vilji í æðum hans“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðjón Þórðarsson fer fögrum orðum um fyrrum lærisveni sinn Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfara Víkings Reykjavíkur
Guðjón Þórðarsson fer fögrum orðum um fyrrum lærisveni sinn Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfara Víkings Reykjavíkur Vísir/Samsett mynd

Guð­jón Þórðar­son, einn sigur­sælasti þjálfari ís­lenskrar fót­bolta­sögu, fer fögrum orðum um sveitunga sinn Arnar Gunn­laugs­son, þjálfarann titla­óða sem á dögunum jafnaði met Guð­jóns. Arnar sé ekki eins og margir, kaþólskari en páfinn þegar kemur að boltanum og afar vel til þess búinn að taka skrefið út í heim í þjálfun.

Arnar hefur á skömmum tíma gert sig gildandi sem titla­óður þjálfari hér á Ís­landi. Víkingarnir hans hafa unnið sex af síðustu níu titlum sem í boði hafa verið.

Liðið í ár, sem hefur nú tryggt sér tvennuna, bæði Ís­lands- og bikar­meistara­titilinn, er í um­ræðunni sem besta lið Ís­lands­sögunnar.

Leiðir Guð­jóns og Arnars lágu snemma saman.

„Það byrjar bara strax í barn­æsku þegar að Arnar var korn­ungur drengur. Hann var sam­ferða Þórði syni mínum upp alla yngri flokkana hjá ÍA. Þegar að ég tek síðan við ÍA liðinu, haustið 1990, þá er Arnar í liðinu. Maður sá strax að þar var á ferðinni mjög efni- og fram­bæri­legur leik­maður sem átti eftir að láta til sín taka.“

Arnar átti, að sögn Guð­jóns eftir að gera það mjög gott undir hans stjórn hjá ÍA á Akra­nesi. fyrir okkur hjá ÍA í deildinni árin 1991 og 1992.

„Það var eftir það tíma­bil sem hann fór til Feyenoord í Hollandi. Arnar var mjög öflugur snemma, sýndi af sér góðan þokka og mikinn vinnu­vilja. Þá hafði hann eitt sem margir ættu að til­einka hjá sér.

Sumir hafa haldið að Arnar, og tví­bura­bróðir hans Bjarki, væru ein­hverjar dúkkur. Að Arnar væri ein­hver dúkka en hann var það aldrei. Arnar æfði mjög vel og fast, tók á því og kvartaði aldrei.“

Klippa: Gaui Þórðar um Arnar: Ekki eins og margir, kaþólskari en páfinn

Eftir brott­för Arnars til Feyenoord í Hollandi áttu leiðir hans og Guð­jóns eftir að liggja aftur saman hjá ís­lenska lands­liðinu. Guð­jón þá lands­liðs­þjálfari og Arnar leik­maður. Þeir unnu svo aftur saman hjá Stoke City og unnu þar titla.

„Það var sama sagan með Arnar þar. Þessi fram­bæri­legi fót­bolta­maður hafði hug­myndir um fót­boltann. Hvernig hann vildi spila hann. Maður sá strax í honum mikinn á­huga og vilja fyrir fót­bolta. Maður gat þó ekki endi­lega séð það fyrir sér á þeim tíma­punkti fram­bæri­legur og fram­sækinn þjálfari. Það kom síðar.“

Ekki eins og margir, kaþólskari en páfinn

En gat Guð­jón séð það í fari Arnars á þessum tíma að hann hefði það í sér að geta orðið fram­bæri­legur þjálfari?

„Hann hafði alltaf fót­bolta­sýn. Það er það sem hann hefur í dag. Hann hefur sýn, er ó­feiminn við að breyta til og kann að spila úr leik­manna­hópi sínum. Arnar er ekki fastur í viðjum vanans. Hann er ekki eins og margir, kaþólskari en páfinn með að­ferðar­fræðina sína. Hann breytir um leik­að­ferð þegar því er að skipta og færir úr einni leik­að­ferðinni í aðra.

Hann droppar með liðið sitt. Fer djúpt niður á völlinn til að fá skyndi­sóknar­færi. Hann pressar. Hann blandar þessu öllu saman og er ó­feiminn við að breyta leik­skipu­lagi, bæði í miðjum leik sem og frá einum leik til annars. Því dáist ég að hjá honum því svona nálgun kostar mikla vinnu hjá þjálfurum, að út­búa sig með þessum hætti. Arnar hefur gert þetta mjög vel. Hann er út pældur sem þjálfari.“

Eru góðir saman í metorðastiganum

Á dögunum jafnaði Arnar met sem Guð­jón setti sem þjálfari tveggja liða árin 1993-1996. Þeir eru einu þjálfararnir sem hafa unnið bikar­meistara­titilinn hér heima fjórum sinnum í röð.

Guðjón Þórðarson með Framrúðubikarinn fræga sem Stoke City vann undir hans stjórn vorið 2000.vísir/getty

Hafðir þú trú á því eftir því sem leið á sigur­göngu Arnars í bikar­keppninni að hann gæti jafnað met þitt?

„Ég hélt það já. Fyrsta hindrunin er oft erfiðust. Að byrja vinna. Þegar að maður byrjar að vinna þá skapar maður með sér á­kveðnar venjur. Arnar gerði það. Þegar að hann var búinn að taka titil númer tvö, þá sá ég í honum að með á­fram­haldandi vinnu með lið Víkings gæti hann jafnað þetta met og jafn­vel slegið það.

Ég segi sem er að ég er í góðum hópi. Þetta er ekki stór hópur. Við erum bara tveir og getum eigin­lega ekki titlað okkur sem hóp einu sinni. En við erum góðir fé­lagarnir þarna saman.“

Ljúfur maður sem breytist í hörkukarl

En hvað er það sem hefur komið Arnari í þessa stöðu? Sérðu eitt­hvað sam­bæri­legt með ykkur tveimur hvað þjálfara­ferilinn varðar?

„Arnar er náttúru­lega mjög vinnu­samur og vel skipu­lagður þjálfari. Hann er agaður og það er fyrst og fremst það sem hefur komið honum í þessa stöðu. Arnar er til­búinn að leita nýrra leiða. Hann er ó­hræddur við að brjóta upp hefðir og það sem fyrir liggur. Það gerir hann ó­hikað. Það er kannski það aðal­lega sem maður gerði sjálfur á sínum þjálfara­ferli.“

Arnar Gunnlaugsson brosir með bikaranaVísir/Hulda Margrét

„Arnar hefur á­kveðna ó­fyrir­leitna nálgun í starfi sínu. Hann lætur ekkert hlaupa með sig í gönur og er á­kveðinn. Þessi ljúfi maður breytist í hörku­karl í boð­vanginum þegar á hólminn er komið. Hann er mjög skynugur og maður sér margt líkt með okkur.

Hann hefur upp­eldið af Skaganum þar sem ekkert var á­sættan­legt nema sigur. Arnar hefur það í blóði sínu. Það rennur stríðum straumi sigur­vilji í æðum hans.“

Arnar best til þess búinn

Guð­jón er einn þeirra ís­lensku fót­bolta­þjálfara sem hefur tekið skrefið er­lendis í þjálfun og unnið það stóra sigra. Sér hann Arnar fyrir sér fara í þjálfun er­lendis og gera vel þar?

„Ég myndi halda að ef ein­hver nú­verandi ís­lensku þjálfurunum gæti gert það þá sé það Arnar sem sé best búinn til þess. Hann er með sterka sýn á leikinn, er fjöl­hæfur og hefur reynslu er­lendis frá á sínum at­vinnu­manna­ferli. Ég tel að þetta geti allt komið heim og saman og að við gætum farið að sjá hann taka að sér starf er­lendis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×