Körfubolti

Nýtt ofurlið í NBA-deildinni eftir Lillard skiptin í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður ekki auðvelt að stoppa bæði Damian Lillard og Giannis Antetokounmpo í vetur.
Það verður ekki auðvelt að stoppa bæði Damian Lillard og Giannis Antetokounmpo í vetur. Getty/Alika Jenner

Damian Lillard er orðinn leikmaður Milwaukee Bucks í NBA deildinni í körfubolta eftir risaskipti milli þriggja félaga í gær.

Lillard hefur verið orðaður við Miami Heat í marga mánuði en Portland Trail Blazers sætti sig ekki við tilboð Miami og vildi alls ekki skipta honum þangað.

Í stað þess verður Lillard liðsfélagi Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks. Hinn 33 ára gamli bakvörður ætti því að fá loksins alvöru möguleika á því að vinna NBA titilinn í fyrsta sinn.

Þeir mynda nefnilega þarna nýtt ofurlið í NBA deildinni og að sjálfsögðu voru veðbankar fljótir að setja Bucks liðið sem það sigurstranglegasta á komandi tímabili.

Það þurfti hjálp frá Phoenix Suns til að koma þessum leikmannaskiptum í gær.

Milwaukee Bucks fær Lillard en á móti fær Portland Trail Blazers leikmennina Jrue Holiday, Deandre Ayton og Toumani Camara auk þess að fá valrétt Buck í fyrstu umferð nýliðavalsins 2029 og tvo aðra valrétt frá 2028 og 2030.

Phoenix Suns fær síðan leikmennina Jusuf Nurkic, Grayson Allen, Nassir Little og Keon Johnson.

Það er búist við því að Portland reyni að skipta Jrue Holiday áfram til annars liðs. Holiday hafði aðeins daginn áður tilkynnt að hann vildi spila fyrir Milwaukee Bucks út ferilinn en það breyttist snögglega.

Það er ljóst að þarna sameinast tveir af bestu leikmönnum NBA deildarinnar og leikmenn sem ættu að passa mjög vel saman. Giannis Antetokounmpo var með 31,1 stig, 11,8 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en Damian Lillard var þá með 32,2 stig, 4,8 fráköst og 7,3 stoðsendingar í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×