Fótbolti

Mark Lukaku dugði ekki Rómverjum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gengi Roma í upphafi tímabils hefur ekki verið upp á marga fiska.
Gengi Roma í upphafi tímabils hefur ekki verið upp á marga fiska. Vísir/Getty

Roma gerði í kvöld 1-1 jafntefli gegn Torino á útivelli. Ítalíumeistarar Napoli náðu aðeins markalausu jafntefli gegn Bologna í dag.

Lærisveinar Jose Mourinho áttu erfitt uppdráttar í upphafi Serie A en komust á beinu brautina þegar liðið vann 7-0 sigur á Empoli í síðustu umferð.

Í kvöld mætti liðið Torino á útivelli og lengi vel leit út fyrir að annar sigurleikur tímabilsins væri í höfn. Romelu Lukaku skoraði á 68. mínútu en undir lokin náði Duvan Zapata að jafna metin og lokatölur 1-1.

Ítalíumeistarar Napoli voru í heimsókn hjá Bologna í dag en liðið var um miðja deild fyrir leikinn. Napoli náði ekki að knýja fram sigur og urðu að sætta sig við markalaust jafntefli.

Napoli er því aðeins í 7. sæti deildarinnar eftir fimm umferðir en lærisveinar Jose Mourinho í Roma eru í 13. sæti og hafa aðeins unnið einn sigur í fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×