Körfubolti

Jason Kidd þjálfar kvennalið í minningu Kobe

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jason Kidd er þjálfari Dallas Mavericks
Jason Kidd er þjálfari Dallas Mavericks EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Jason Kidd þjálfar ekki bara stórstjörnur NBA deildarinnar. Árið 2021 tók hann upp þjálfun á úrvalsliði u17 ára kvenna til minningar um Kobe Bryant. Liðið sem hann þjálfar, Jason Kidd Select, vann körfuboltamót í hinum víðfræga Rucker Park síðastliðna helgi.

Þjálfarinn færði liðinu sérhannaða meistarahringa að gjöf og minntist fyrrum keppinautar síns.

„Við sáum öll hvað Kobe Bryant gerði, ljósið sem hann lýsti yfir kvennaíþróttir. Þegar hann og dóttir hans féllu frá vaknaði sú spurning hver myndi nú bera kyndilinn.“ 

Jason Kidd og Kobe Bryant voru harðir keppinautar á körfuboltavellinum og mættust í úrslitum NBA deildarinnar árið 2002 með New Jersey Nets og Los Angeles Lakers. Kobe og Lakers liðið fóru þar með 4-0 sigur af hólmi. Jason Kidd náði hefndum tæpum tíu árum síðar þegar hann sló Lakers út á leið sinni að meistaratitli sem leikmaður Dallas. 

Kidd fer fögrum orðum um Kobe og dóttur hans Gigi Bryant sem féllu frá í þyrluslysi árið 2020. Hann minnist þeirra með því að halda áfram þeirri vegferð sem þau höfðu valið sér og er orðinn mikill talsmaður kvennakörfubolta.

Hann segir að þrátt fyrir stífa dagskrá sem aðalþjálfari Dallas Mavericks muni hann halda áfram að leggja sitt af mörkum fyrir liðið sitt. 

„Ég mun halda áfram að gefa þessum ungu konum eins mikinn tíma og ég get, tala við þær við hvert tækifæri. Það eina sem ég reyni að gera er að hjálpa þeim áfram á sinni vegferð.“

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×