Íslenski boltinn

Kjartan óbrotinn og bíður frekari rannsókna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kjartan Kári í leiknum í gær.
Kjartan Kári í leiknum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Kári Halldórsson, leikmaður FH, var fluttur með sjúkrabíl af Kópavogsvelli í gær eftir harkalegt samstuð við Anton Ara Einarsson, markvörð Breiðabliks, í 2-0 sigri FH-inga í gærkvöld. Hann er óbrotinn en bíður frekari rannsókna.

Kjartan fór beint á sjúkrahús eftir höggið en niðurstaða úr sneiðmyndatöku sýnir að hann er ekki brotinn. Sem hann staðfesti við Vísi í dag.

Hann fékk að fara heim en er með hálskraga og má ekki hreyfa sig mikið. Líklega fékk hann heilahristing við höggið. Hann segir líðan eftir atvikum og bíður nú frekari rannsókna.

„Ég er vel lemstraður eftir þetta en sem betur fer óbrotinn. Ég er að bíða eftir boði í segulómun til að skoða liðbönd og fleira,“ sagði Kjartan við Vísi. Hann fer í segulómun síðar í dag.

Kjartan er tvítugur sóknartengiliður og kantmaður. Hann er uppalinn hjá Gróttu og er á láni hjá FH frá Haugasundi í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×