Það var Dusan Vlahovic sem kom heimamönnum í Juventus yfir strax á tíundu mínútu áður en Federico Chiesa tvöfaldaði forystu liðsins á 26. mínútu eftir stoðsendingu frá Adrien Rabiot.
Heimamenn fóru því með 2-0 forystu inn í hálfleikinn, en Luis Alberto minnkaði muninn fyrir Lazio á 64. mínútu.
Vlahovic endurheimti þó tveggja marka forskot heimamanna þremur mínútum síðar og þar við sat.
Niðurstaðan því 3-1 sigur Juventus sem lyftir sér í það minnsta tímabundið á topp ítölsku úrvalsdeildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki. Lazio situr hins vegar í 15. sæti með aðeins þrjú stig.