Fótbolti

Ronaldo fetar í fótspor Bonucci og ætlar í mál við Juventus

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo lék með Juventus frá 2018 til 2021. Hann ætlar nú í mál við félagið.
Cristiano Ronaldo lék með Juventus frá 2018 til 2021. Hann ætlar nú í mál við félagið. Giuseppe Cottini/NurPhoto via Getty Images

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo ætlar að lögsækja ítalska stórveldið Juventus vegna vangoldinna launa.

Það er ítalski miðillinn Gazette sem greinir frá málinu. Þar segir að Ronaldo hafi nú þegar rætt við saksóknaraembættið í Turin og að Ronaldo hafi tekið ákvörðunina um að leita réttar síns eftir það.

Samkvæmt umfjöllun Gazette um málið á Ronaldo inni 19,9 milljónir evra í laun hjá ítalska stórveldinu, sem samsvarar tæpum þremur milljörðum íslenskra króna. Juventus greiddi ekki út umsamin laun í kórónuveirufaraldrinum til að reyna að bjarga fjárhagi félagsins.

Ronaldo er ekki eini fyrrum leikmaður Juventus sem stendur í málaferlum við félagið þessa dagana. Leonardo Bonucci, sem á sínum tíma lék yfir 500 leiki fyrir félagið, ætlar einnig að leita réttar sína fyrir meðhöndlunina sem hann fékk frá Juventus í sumar.

Bonucci var þát látinn æfa einn og fékk ekki aðgang að öllu starfsliði og æfingasvæði félagsins á meðan Juventus leitaði leiða til að koma honum frá félaginu. Bonucci gekk að lokum í raðir Union Berlin í Þýskalandi á lokadegi félagsskiptagluggans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×