„Í þessum töluðu orðum er sendiherra auk nokkurra diplómata bókstaflega haldið í gíslingu í franska sendiráðinu, og komið er í veg fyrir að þeir fái að borða,“ sagði Macron við blaðamenn í Frakklandi í dag.
„Ef eitthvað verður gert þá verður það í samráði við Bazoum, vegna þess að hann er hinn lögmæti þjóðarleiðtogi og við tölum saman á hverjum degi,“ sagði hann, aðspurður hvort franska ríkið myndi reyna að koma Itte úr landi.
Herforingjarnir gáfu Itte tveggja sólarhringa fyrirvara til að yfirgefa landið í síðasta mánuði, um það bil mánuði eftir að þeir sölsuðu undir sig völd. Fyrirvarinn var að sögn herforingjanna til kominn vegna þess að Itte hafði neitað að hitta nýja stjórnendur landsins og vegna þess að yfirvöld væru að vinna gegn hagsmunum landsins.
Þegar fresturinn rann út staðfesti Macron að Itte yrði áfram í Níger. Þá ítrekaði hann að hann styddi Bazoum, sem væri lýðræðislega kjörinn leiðtogi ríkisins. Hann sagði stefnu Frakklands skýra og að valdaræningjarnir yrðu ekki viðurkenndir leiðtogar ríkisins. Þá sagði hann það þvælu að Frakkar væru óvinir Níger, eins og valdaræningjarnir hafa haldið fram.