Umræðan

Afturkippur í verðlagningu hlutabréfa

Brynjar Örn Ólafsson skrifar

Á undanförnum tveimur mánuðum hefur svonefndur hagsveifluleiðréttur hagnaður (CAPE) sem hlutfall af virði Úrvalsvísitölunnar í Kauphöllinni farið lækkandi eftir að hafa hækkað nær samfellt á fyrri hluta ársins 2023. Úrvalsvísitalan (OMXI10) var þannig byrjuð að verða betur verðlögð miðað við hagnað, samanborið við vexti, en tók svo afturkipp frá og með júlí.

Í lok ágúst stóð hlutfallið í um 29,5, en var um 25 í lok júní. Með öðrum orðum tæki það fjárfesti um 29,5 ár að fá fjárfestinguna sína til baka með árlegum hagnaði. Í byrjun júlímánaðar voru tvö ný félög tekin inn í Úrvalsvísitöluna, Alvotech og Síldarvinnslan, í staðinn fyrir Símann og Sjóvá. Fram til þessa hefur talsvert tap verið á rekstri Alvotech sem olli því að tólf mánaða hagnaður félaga sem mynda Úrvalsvísitöluna lækkaði frá og með þeim breytingum. Við það hækkaði umtalsvert hið hefðbundna VH-hlutfall vísitölunnar tímabundið, eða úr 11 í júní upp í 31 í ágúst.

Áhugavert er á meðan virði félaga á móti hagnaði hefur farið hækkandi að undanförnu, hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa sömuleiðis hækkað. Þannig stóð ávöxtunarkrafa fimm ára óverðtryggðra ríkisbréfa í liðlega 7,25 prósentum um síðustu mánaðarmót. Hagsveifluleiðréttur hagnaður er iðulega mjög stöðug stærð enda er tilgangurinn að reyna meta „eðlilegan hagnað“ í gegnum hagsveifluna.

Raunvextir hafa haldist í kringum þrjú prósent, sem gefur til kynna að skuldabréfafjárfestar vænti þess verðbólgan muni verða um eða yfir fjögur prósent. Til samanburðar er ávöxtunarkrafan á fimm ára ríkisbréf í Bandaríkjunum um 4,4 prósent.

Höfundur er hagfræðingur.


Nánar um CAPE:

Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.

Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.




Umræðan

Sjá meira


×