Innlent

Íslendingar frekar óánægðir með ákvörðun Svandísar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Meirihluti þeirra sem myndu kjósa Vinstri græna voru óánægð með ákvörðunina, en Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, er þingmaður flokksins.
Meirihluti þeirra sem myndu kjósa Vinstri græna voru óánægð með ákvörðunina, en Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, er þingmaður flokksins. Vísir/Arnar

Íslendingar virðast almennt óánægðir með ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að leyfa hvalveiðar með nýjum og hertum skilyrðum. Nær 43 prósent landsmanna eru óánægð með ákvörðunina en 35 prósent eru ánægð. Um 23 prósent eru hvorki ánægð né óánægð með ákvörðunina. Þetta kemur fram í niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup.

Þar kemur einnig fram að enn hærra hlutfall sé almennt á móti því að Íslendingar stundi hvalveiðar, eða 48 prósent en 32 prósent eru hlynnt.

Í þjóðarpúlsinum kemur jafnframt fram að karlar séu ánægðari en konur með ákvörðun matvælaráðherra. 41 prósent karla eru ánægðir, en 28 prósent kvenna. Á móti kemur er helmingur kvenna ósátt með ákvörðunina, en 36 prósent karla.

Fólk er líklegra til að vera ánægt með ákvörðunina eftir því eldra sem það er. Og þá eru íbúar landsbyggðarinnar ánægðari með hana heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Jafnframt kemur fram að fólk sem hefur lokið háskólaprófi sé óánægðara en eir sem hafa minni menntun.

Þá er greint frá því að þeir sem myndu kjósa Miðflokkinn, yrði kosið til Alþingis í dag, væru ánægðust með ákvörðunina, en þeir sem myndu kjósa Pírata óánægðust.

57 prósent þeirra sem myndu kjósa Vinstri græna voru óánægð með ákvörðunina, en Svandís Svavarsdóttir er þingmaður flokksins. Á móti eru 32 prósent kjósenda flokksins ánægðir.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×