Íslenski boltinn

Ætla að tefla fram kvennaliði í fyrsta sinn í áraraðir: „Dalvískar stelpur sem hafa sýnt þessu mikinn áhuga“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dalvík/Reynir er í mikilli sókn,
Dalvík/Reynir er í mikilli sókn, sævar geir sigurjónsson

Mikill uppgangur er í fótboltanum á Dalvík og hann einskorðast ekki bara við karlaflokkana. Á næsta tímabili stefna Dalvíkingar á að tefla fram liði í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn í áraraðir.

Karlalið Dalvíkur/Reynis tryggði sér sæti í Lengjudeildinni með sigri á Hetti/Hugin, 4-2, á föstudaginn. Dalvíkingar verða einnig að öllum líkindum með lið í 2. deild kvenna sumarið 2024.

„Það er stefnt að því að skrá meistaraflokk kvenna hjá Dalvík/Reyni til leiks næsta sumar. Það verður í fyrsta sinn í ansi mörg ár sem við verðum með meistaraflokk kvenna,“ sagði Kristinn Þór Björnsson, framkvæmdastjóri Dalvíkur/Reynis, í samtali við Vísi.

„Iðkendafjöldinn í yngri flokkunum hefur breyst. Við höfum verið með 3. og 4. flokk kvenna sem hefur gengið vel. Nú eru þær stelpur að detta á þann aldur að þær vantar verkefni. Það er ekki 2. flokkur kvenna á Dalvík og þá var farið beint í búa til meistaraflokk og skapa verkefni fyrir þær þótt þær séu ungar.“

Kristinn segir að efniviðurinn sé til staðar á Dalvík.

„Þetta eru dalvískar stelpur sem hafa sýnt þessu mikinn áhuga. Undanfarin ár hafa verið stelpur frá Dalvík í Þór/KA og þær eru driffjöðurinn í þessu, að keyra þetta áfram. Þær vilja gefa þessu tækifæri. Þetta eru stelpur sem eru fyrir sunnan í skóla og vilja kannski ekki vera í Bestu deildinni. Þetta er hugmyndin; að nota þessar eldri stelpur ásamt þeim yngri og stelpum af Norðurlandinu,“ sagði Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×