Sport

Vålerenga áfram í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir vítaspyrnukeppni

Andri Már Eggertsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir er leikmaður Vålerenga.
Ingibjörg Sigurðardóttir er leikmaður Vålerenga. Vålerenga

Vålerenga fór áfram í aðra umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Celtic var með unninn leik en Vålerenga jafnaði undir lok framlengingar og knúði fram vítaspyrnukeppni þar sem heimakonur höfðu betur . 

Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir var með fyrirliðabandið þegar Vålerenga tók á móti Celtic í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Ingibjörg sem var valin í landsliðshópinn á dögunum spilaði allan leikinn í vörn Vålerenga.

Leikurinn byrjaði með látum og Olaug Tvedten kom Vålerenga yfir strax á 5. mínútu. Fjórum mínútum síðar jafnaði Katherine Loferski.

Leikurinn datt niður eftir fjöruga byrjun og staðan í hálfleik var 1-1.

Það gerðist lítið í síðari hálfleik og hvorugu liðinu tókst að skora sem gerði það að verkum að grípa þurfti til framlengingar. Til að skera úr um það hvaða lið færi í næstu umferð.

Það var Jennifer Smith sem skoraði  í framlengingu á 116 mínútu og allt benti til þess að Celtic væri að fara áfram. Vålerenga fékk hins vegar vítaspyrnu sem Elise Hove Thorsnes skoraði úr á 123. mínútu og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. 

 

Vålerenga fór áfram eftir ótrúlega vítaspyrnukeppni sem endaði með að markmaður Celtic, Kelsey Daugherty, tók víti og brenndi af. Ingibjörg tók víti og skoraði úr spyrnunni. 

Valskonur eru sömuleiðis komnar í úrslitaeinvígið um sæti í riðlakeppni Meistaradeild Evrópu en dregið verður þann 15. september. Spilað verður tveggja leikja einvígi heima og úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×