Breska blaðið Guardian greinir frá því að Wright hafi látist á heimili sínu í Kaliforníu í gær. Hann hafði greinst með Parkinson sjúkdóminn auk heilabilunar áður en hann lést og hefur miðillinn eftir syni hans að hann hafi átt erfitt með gang og tal vegna veikindanna.
Wright fæddist í New Jersey á austurströnd Bandaríkjanna árið 1943. Hann átti feril í sjónvarpi auk útvarps sem barnastjarna en hann lék einnig í Broadway söngleiknum Fanny ellefu ára gamall árið 1954.
Lagahöfundurinn hóf nám í læknisfræði í Evrópu en ákvað að leggja tónlistina fyrir sig. Hann var um stund söngvari bresku hljómsveitarinnar Spooky Tooth en hóf svo sólóferil sinn árið 1970.
Wright samdi reglulega tónlist með Bítlinum George Harrison sem hann kynntist sama ár en þeir urðu miklir vinir. Hann hefur síðan lýst Bítlinum sem sínum helsta innblæstri. Þeir ferðuðust saman árið 1975 til Indlands og samdi Wright lag sitt og plötu Dream Weaver í kjölfarið.