Lífið

Söngvari Smash Mouth látinn

Lovísa Arnardóttir skrifar
Steve Harwell er látinn 56 ára að aldri. Hann var söngvari hljómsveitarinnar Smash Mouth.
Steve Harwell er látinn 56 ára að aldri. Hann var söngvari hljómsveitarinnar Smash Mouth. Vísir/EPA

Söngvari Smash Mouth, Steve Harwell, er látinn. Hljómsveitin var þekkt fyrir smelli eins og All Stars og Walkin on on the Sun. Söngvarinn hóf líknandi meðferð fyrr í vikunni. 

Steve Harwell var einn stofnenda hljómsveitarinnar Smash Mouth. Hann er nú látinn 56 ára að aldri. Söngvarinn lést á heimili sínu í Boise í Idaho og var, samkvæmt yfirlýsingu umboðsmanns hans, umkringdum fjölskyldu og vinum. Yfirlýsinguna sendi hann á Rolling Stone. 

Greint var frá því í síðustu viku að söngvarinn hefði hafið líknandi meðferð vegna lifrarbilunar. Umboðsmaður hans, Robert Hayes, tilgreindi ekki dánarorsök í yfirlýsingu sinni en í öðrum erlendum miðlum segir að Harwell hafi um árabil misnotað áfengi.

Harwell var giftur Michelle Laroque og saman áttu þau einn strák, Presly Scott Harwell, sem lést aðeins sjö mánaða gamall árið 2001.

Smash Mouth var verulega vinsæl hljómsveit á tíunda áratug síðustu aldar og átti smelli eins og All Star og Walkin´on the Sun.

Hayes sagði arfleifð Harwell vera tónlistina en Smash Mouth seldi tíu milljón hljómplötur um allan heim og átti tvo smelli sem náðu á toppinn auk þess sem hljómsveitin var tilnefnd til Grammy verðlauna. Þá má ekki gleyma því að tónlist þeirra spilaði stórt hlutverk í kvikmyndunum um Skrekk [e. Shrek].






Fleiri fréttir

Sjá meira


×