Innlent

Kókaín­par hafnaði sam­verknaði þrátt fyrir heil­mikil sam­skipti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fólkið flaug frá Madrid á Spáni þann 23. apríl síðastliðinn.
Fólkið flaug frá Madrid á Spáni þann 23. apríl síðastliðinn. Unsplash/Emilio Garcia

Erlendur karlmaður og erlend kona hafa verið dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir innflutning á kókaíni til landsins. Fólkið játaði brot sitt en hafnaði að um samverknað hefði verið að ræða. Samverknaður kemur til þyngingar við brot á lögum.

Angelo Mohamed Sagastegui Mazuelo og Leslie Lisbeth Linares Villanueva kom til landsins með flugi frá Madrid þann 23. apríl síðastliðinn. Grunur lék á því að þau væru búin að dvelja lengur innan Schengen svæðisins en þau höfðu heimild til og voru færð á varðstofu lögreglu.

Þau sögðust ekkert þekkja hvort til annars. Í ljós kom að þau voru með tugi pakkninga af kókaíni innvortis og játuðu þau hvort í sínu lagi að hafa smyglað kókaíni. 590 grömm í 62 pakkningum hjá Angelo og 748 grömm í 78 pakkningum hjá Leslie.

Þau játuðu þó ekki að hafa framið brotið í samverknaði sem varð til þess að aðalmeðferð fór fram í málinu. Fólkið sagðist vera hælisleitendur í Madrid sem ættu engan kost á heiðarlegri vinnu. Þau hefðu því tekið að sér að flytja kókaín innvortis til Íslands. Tvö þúsund evrur voru greiðslan fyrir verkefnið og 350 evrur til að halda þeim uppi á Íslandi í fjóra til fimm daga. Svo áttu þau bókað sama flug frá landinu.

Héraðsdómur Reykjaness taldi of mikið ekki ganga upp í frásögn fólksins þess efnis að fólkið hefði ekki unnið saman við innflutninginn. Fólkið hafði verið í samskiptum á Whatsapp á meðan það kyngdi pakkningunum og sent farseðla sín á milli. Til að byrja með hefðu þau látið lítið með kunningskap sinn en svo komið í ljós að þau höfðu þekkst í nokkra mánuði og verið í sömu íbúðinni í Madrid þar sem kókaínið var afhent.

Héraðsdómur dæmdi fólkið í tveggja ára fangelsi. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem þau hafa sætt frá komunni til landsins þann 23. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×