Indverjinn Neeraj Chopra vann sögulegt gull fyrir Indverja í spjóti á heimsmeistaramótinu nú í kvöld. Þetta eru fyrstu gullverðlaun Indverja á heimsmeistaramóti frá upphafi en Chopra kastaði 88,17 metra. Arshad Nadeem varð annar með kasti upp á 87,82 og Tékkinn Jakub Vadlejch vann bronsið en hann kastaði 86,67 metra.
Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen missti af gullverðlaunum í 1500 metra hlaupi en í 5000 metrunum voru sekúndubrotin hans megin. Hann kom fyrstur í mark á tímanum 13.11,30 mínútur en Mohamed Katir varð annar aðeins fjórtán hundraðshlutum á eftir. Jacob Krop varð þriðji og hlaut bronsið.
Í hástökki kvenna vann hinn úkraínska Yaroslava Mahuchikh en hún var sú eina sem fór yfir tvo metra. Sigurstökkið var 2,01 metri en Eleanor Patterson og Nocola Olyslagers frá Ástralíu fengu silfur og brons en báðar stukku þær hæst 1,99 metra.
Mary Moraa frá Kenýa kom fyrst í mark í 800 metra hlaupi kvenna en Keely Hodgkinson varð önnur aðeins 31 hundraðshlutum á eftir. Athing Mu frá Bandaríkjunum hlaut bronsið.
3000 metra hindrunarhlaup er alltaf áhugaverð grein en þar var það Winfred Mutile Yavi sem hlaut gullverðlaun en hún var rúmum fjórum sekúndum á undan Betrice Chepkoech frá Kenýa. Faith Cherotich frá Kenýa fékk bronsverðlaun.
Síðustu greinar kvöldsins voru 4x400 metra boðhlaup karla og kvenna. Í karlaflokki komu Bandaríkjamenn fyrstir í mark. Þeir voru rúmri sekúndu á undan Frökkum en breska sveitin náði bronsinu rétt á undan Jamaíka.
Holland bar sigur úr býtum í kvennaflokki. Femke Bol átti þar ótrúlegan endasprett og stakk sér framfyrir hlaupara Jamaíka en Bretar tryggðu sér bronsið.