Fótbolti

Blikar létu bíða eftir sér í Víkinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Lið Breiðabliks lét heldur betur bíða eftir sér fyrir leik liðsins gegn Víkingi í Bestu deildinni sem á að hefjast nú klukkan 19:15. Hálftíma fyrir leik hafði ekkert sést til liðs Breiðabliks í Víkinni.

Mikið hefur verið fjallað um ósk Breiðabliks að fresta leik liðsins gegn Víkingi í Bestu deildinni sem á að hefjast nú klukkan 19:15. 

Þegar aðeins um hálftími var til upphafsflauts sást ekkert til liðs Breiðabliks og var hreinlega farið að velta því upp hvort liðið myndi ekki mæta til leiks. Liðið var heldur ekki búið að skila inn leikskýrslu.

Skömmu síðar mætti rúta í Víkina og út stigu Blikar og fóru beint út á völl í upphitun.

„Blikarnir eru mættir, þeir voru að hefja upphitun. Þetta er búið að vera smá reikistefna,“ sagði Gunnlaugur Jónsson í beinni útsendingu í Sportpakkanum á Stöð 2.

„Blikarnir skiluðu skýrslunni hálftíma fyrir leik sem er vanalega gert klukkutíma fyrir leik. Það eru 25 mínútur í leik og þeir voru að koma hér í Víkina núna,“ sagði Þorkell Máni Pétursson en hann mun lýsa leiknum í Víkinni á eftir.

„Það verður áhugavert að sjá hvort þessi tilraun Óskars að búa til stríð virki, ef hún virkar þá er hann snillingur.“

Leikur Breiðabliks og Víkings er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×