Forsetaframbjóðandinn var formlega handtekinn í Fulton-sýslu í Atlanta á fimmtudaginn. Hann er auk átján bandamanna ákærður vegna tilraunar þeirra til að snúa niðurstöðum forsetakosninganna í Georgíuríki árið 2020.
Trump var í um tuttugu mínútur í fangelsinu áður en hann yfirgaf ríkið með einkaþotu sinni. Hann var skráður rúm 97 kíló að þyngd og 190 sentímetrar að hæð. Vissar efasemdir hafa verið á lofti um hvort þær upplýsingar séu réttar.
Kosningaskrifstofa Trump hefur nú gefið út að 7,1 milljón dala hefur safnast vegna myndarinnar sem tekin var af Trump í tukthúsinu. Sú upphæð jafngildir tæpum milljarði króna, eða um 940 milljónum.
Skrifstofan hefur nú selt stuttermaboli og bolla sem fangamynd forsetans fyrrverandi prýðir. Á varningum stendur „Aldrei gefast upp.“
Trump campaign sells mugshot merch https://t.co/dwBfmD2JYD pic.twitter.com/wqXlPaMo39
— New York Post (@nypost) August 25, 2023
Trump stendur frammi fyrir þremur öðrum ákærum. Hann er ákærður í Washington-borg fyrir aðild sína að innrásinni í þinghúsið í janúar 2021. Í New York hefur umdæmissaksóknari ákært hann fyrir mútugreiðslur til klámstjörnu og í Flórída sætir hann alríkisákæru fyrir misferli með ríkisleyndarmál.
Meira en hálfur milljarður á sólarhring
Stuðningsmenn Trump virðast hafa aukið stuðning sinn við forsetaframbjóðandann í kjölfar ákæra hans en tuttugu milljónir Bandaríkjadala söfnuðust á þremur vikum eftir að hann fékk á sig ákærurnar í Georgíu og Washington-borg.
Þá söfnuðust um 4,2 milljónir dala í kosningasjóðinn fyrsta sólarhringinn eftir handtöku Trumps á fimmtudag, eða meira en hálfur milljarður króna. Það er hæsta upphæð sem safnast hefur í sjóðinn á einum sólarhring.
Fjárveitingar til forsetaframbjóðandans jukust til muna í lok mars á þessu ári eftir ákæru hans fyrir mútugreiðslurnar í New York. Á fyrstu tveimur vikunum eftir að ákæran var lögð fram safnaðist næstum jafn mikill peningur í kosningasjóð Trump og hafði safnast fyrstu þrjá mánuði ársins.