Sport

Ó­trú­legur á­rekstur á leið í keppni á HM dró dilk á eftir sér

Aron Guðmundsson skrifar
Andrew Hudson átti greinilega í vandræðum með hægra auga sitt í hlaupinu í gærkvöldi.
Andrew Hudson átti greinilega í vandræðum með hægra auga sitt í hlaupinu í gærkvöldi. Vísir/Getty

Andrew Hudson, sprett­hlaupari frá Jamaíka, lenti heldur betur illa í því þegar að tvær skutlur, sem notaðar eru til þess að ferja kepp­endur á HM í frjálsum í­þróttum frá upp­hitunar­svæði leikanna yfir á leik­vanginn sjálfan, skullu saman.

Í einni skutlunni mátti finna téðan Hudson á­samt keppi­nautum hans í 200 metra sprett­hlaupi, þar á meðal heims­meistarann frá Banda­ríkjunum Noah Lyles, en í mynd­skeiði sem hægt er að finna á sam­fé­lags­miðlum má sjá aðra skutluna aka inn í hliðina á hinni.

Hudson var sá sem fór hvað verst út úr þessum á­rekstri en hann fékk gler­brot í augað. Greint er frá raunum hans á BBC en Hudson hélt ó­trauður á­fram, tók þátt í 200 metra sprett­hlaupinu og endaði í 5.sæti.

„Það fór gler­brot í hægra augað mitt og ég sé allt í móðu í hvert skipti sem ég opna það auga,“ sagði Hudson sem fékk lækni til þess að líta á augað fyrir hlaupið.

„Hann reyndi að ná því út og á meðan var mót­stjórn að spyrja mig hvort ég ætlaði mér að hlaupa eða ekki. Ég lagði það mikið á mig til þess að komast á þennan stað að ég hugsaði með mér að ég skyldi alla­vegana láta á þetta reyna.“

Þetta er fyrsta heims­meistara­mót Hudson í frjálsum í­þróttum.

„Þetta er því heldur betur eftir­minni­legt mót. Ég kannski labba bara frá upp­hitunar­svæðinu yfir á leik­vanginn næst,“ sagði Hudson sem glataði í það minnsta ekki húmornum í þessum á­rektri.

En í fullri al­vöru er Al­þjóða frjáls­í­þrótta­sam­bandið með at­vikið til skoðunar en auk Hudsons þurfti einn sjálf­boða­liði að fá með­höndlun frá lækni.

Hudson, sem náði ekki að tryggja sig í úrslitahlaupið með frammistöðu sinni í gær, mótmælti niðurstöðunni í ljósi árekstursins. Mótmæli hans báru árangur því hann hefur nú fengið sæti í úrslitahlaupinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×