Fótbolti

FIFA hefur rann­sókn á hegðun spænska for­setans á úr­slita­leik HM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Rubiales var aðeins of glaður í leikslok á úrslitaleiknum og fór að flestra mati ítrekað langt yfir strikið.
Luis Rubiales var aðeins of glaður í leikslok á úrslitaleiknum og fór að flestra mati ítrekað langt yfir strikið. Getty/Alex Pantling

Lengi getur vont versnað og nú er umdeildasta málið í fótboltaheiminum komið inn á borð hjá FIFA.

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á forseta spænska knattspyrnusambandsins eftir hegðun hans á úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í Ástralíu.

Luis Rubiales er ekki bara forseti spænska knattspyrnusambandsins því hann er líka einn af varaformönnum Knattspyrnusambands Evrópu. Stjórn spænska knattspyrnusambandsins hefur kallað saman neyðarfund og þar þarf forsetinn að verja sína hegðun.

Rubiales kyssti Jenni Hermoso, framherja spænska landsliðsins, beint á munninn í verðlaunaafhendingunni en hann varð líka uppvís að annarri vafasamri hegðun eins og að faðma og kyssa aðra leikmenn, taka um klof sér í heiðursstúkunni, og lyfta leikmönnum upp á axlir sér á grasinu eftir verðlaunaafhendinguna.

Mál hans fer nú fyrir aganefnd FIFA en hann hefur fengið mikla gagnrýni fyrir hegðun sína og nú síðast kallaði leikmaðurinn og leikmannasamtökin eftir því að slík hegðun hefði einhverjar afleiðingar.

Aganefnd FIFA mun nú skoða hvort að Rubiales hafi brotið gegn grein þrettán í agareglum sambandsins sem snýr af móðgandi hegðun og háttvísi.

Þegar Rubiales tók um klof sér í heiðursstúkunni þá stóð hann rétt hjá drottningu Spánar og sextán ára dóttur hennar.

Rubiales baðst afsökunar á kossinum á mánudaginn en forsætisráðherra Spánar var einn af þeim sem taldi það ekki nóg.

Leikmaðurinn er 33 ára gömul, hefur spilað yfir hundrað landsleiki og er markahæsta landsliðskona Spánar frá upphafi.

Hún hefur fengið liðsinni frá Alþjóða leikmannasamtökunun, Futpro, og segir að samtökin muni sjá um afskipti hennar að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×