Bræðurnir eru 40 og 38 ára gamlir og komust upp með brot sín í fjögur ár áður en þeir voru handteknir. Þeir störfuðu hjá föður sínum, á barnum Mama Hooch og veitingastaðnum Venuti í Christchurch, þar sem þeir byrluðu fyrir fórnarlömbum sínum.
Margar kvennanna voru táningar þegar árásirnar áttu sér stað.
Danny var ákærður fyrir brot gegn fimmtán konum og er sagður hafa ráðist á margar þeirra á salernum staðanna. Roberto var dæmdur fyrir brot gegn fimm konum, meðal annars einni sem hann myndaði á meðan henni var nauðgað á veitingastaðnum.
Bræðurnir voru ákærðir fyrir samtals 69 brot, þar á meðal nauðganir, önnur kynferðisbrot, ofbeldi og byrlun, auk þess sem þeir voru fundnir sekir um að hafa myndað nokkrar kvennanna án samþykkis.
Dómarinn í málinu sagði brot bræðranna fordæmalaus í sögu landsins og skikkaði báða til að afplána að minnsta kosti helming dómsins áður en þeir geta sótt um reynslulausn.
Sex kvennanna lásu upp yfirlýsingu í dómsal á þriðjudag. Ein þeirra sagði bræðurna hafa svipt hana sjálfstæðinu og að hún myndi aldrei fyrirgefa þeim. Þá ávarpaði hún Danny:
„Mér skilst að þú eigir dóttur... einn daginn verður hún 19 ára. Hún mun alast upp í heimi þar sem líkurnar á því að hún lendi í klóm manns á borð við þig eru einn af fjórum.“
Bræðurnir játuðu hluta brotanna en hvorugur hefur sýnt iðrun, að því er fram kemur í frétt Guardian.