Erlent

Hús­leit gerð hjá stuðnings­fólki Rússa vegna stríðs­vopna

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmæli gegn stríðinu í Úkraínu og stuðningi Þýskalands við Úkraínumenn í Berlín fyrr á þessu ári. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Mótmæli gegn stríðinu í Úkraínu og stuðningi Þýskalands við Úkraínumenn í Berlín fyrr á þessu ári. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Þýskir saksóknarar greindu frá því að þeir hefðu gert húsleit hjá pari sem hefur staðið fyrir mótmælum gegn stuðningi þýskra stjórnvalda við Úkraínu í dag. Rannsóknin á parinu er sögð snúast um brot á lögum um framleiðslu og flutnings á stríðsvopnum.

Húsleit var gerð hjá Max Schlund og Elenu Kolbansnikovu, aðgerðasinnum sem styðja rússnesk stjórnvöld, í framhaldi af fréttum Reuters-fréttastofunnar um að parið hefði safnað fé til að styðja rússneska herdeild í Donbas í Úkraínu í mars. Féð hafi verið notað til þess að festa kaup á talstöðvum, heyrnartólum og símum.

Talsmaður saksóknara í Köln segir Reuters að húsleitin í dag tengist grun um brot á lögum um eftirlit með stríðsvopnum. Þau ná utan um framleiðslu og flutning á öllu frá handsprengjum til orrustuþotna. Talsmaðurinn sagði rannsóknina ekki tengjast stuðningi parsins við Rússa í Donbas.

Lögmaður parsins, sem hefur einnig tekið þátt í mótmælum þeirra, segir að íbúð þeirra hafi skemmst í húsleitinni og að Schlund hafi orðið fyrir meiðslum. Talsmaður saksóknara sagðist ekki vita af meiðslum hans.

Kolbansnikova hefur áður sakað þýsk stjórnvöld um „lögleysu“ og að reyna að þagga niður í pólitískum andstæðingum sínum.

Evrópskar leyniþjónustustofnanar telja sig hafa heimildir fyrir því að stjórnvöld í Kreml hafi markvisst unnið að því að grafa undan stuðningi við Úkraínumenn í Þýskalandi. Í því skyni hafi þeir meðal annars reynt að leiða saman ysta hægrið og ysta vinstrið í þýskum stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×