Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - KR 3-1 | Emil Atla með þrennu í tímamótaleik Daníels Laxdal

Árni Jóhannsson skrifar
Menn kvöldsins að fagna
Menn kvöldsins að fagna Vísir / Anton Brink

Stjörnumenn unnu KR nokkuð sannfærandi í kvöld í 20. umferð Bestu deildar karla í Garðabænum í kvöld. Daníel Laxdal var maður kvöldsins fyrirfram en Emil Atlason stal þrumunni með þrennu. Mjög fagmannleg frammistaða hjá Stjörnunni sem taka völdin í kapphlaupinu um fjórða sætið í deildinni.

Leikurinn byrjaði mjög hægt og voru liðin að þreifa á hvoru öðru nærrum því allt fyrsta korterið. Liðin komust ekki í margar stöður til að skapa eitthvað og kom fyrsta marktækifærið ekki fyrr en á 13. mínútu og voru það Stjörnumenn sem áttu hana. Fengu þeir tvö skot í sömu sókninni en lentu bæði skotin í varnarmönnum KR. Þetta vakti bæði liðin af værum blundi og náðu gestirnir álitlegum sóknum áður en Stjarnan komst yfir á 18. mínútu.

Hilmar Árni og Emil Atlason fagnaVísir / Anton Brink

Boltanum var hreinsað út úr vörn Stjörnunnar og var varnarlína KR mjög hátt á vellinum. Emil Atlason slapp þar með í gegn, hljóp allan vallarhelming gestanna og lagði boltann snyrtilega framhjá Aroni markverði KR. 

KR reyndi að koma til baka eftir markið en voru mjög opnir til baka en heimamenn nýttu það ekki. Tíu mínútum eftir markið var KR búið að jafna og þar var að verki Benoný Breki Andrésson.

KR náði að færa boltann kantanna á milli og fundu Ægi Jarl sem átti skot sem endaði í varnarmanni. Þaðan barst boltinn til vinstri á Stefán Árna Geirsson sem negldi fyrir og að framherja sið var Benoný Breki mættur til að koma boltanum í netið úr markteignum. 

KR fagna sínu marki gegn StjörnunniVísir / Anton Brink

KR var samt ekki lengi í paradís því Stjörnumenn komust yfir tveimur minútum seinna. Uppskriftin var svipuð og að fyrra markinu. Maður kvöldsins, Daníel Laxdal, átti sendingu út úr vörn heimamanna sem fór yfir öxl Emils Atlasonar sem gerði sér lítið fyrir og lúðraði boltanum viðstöðulaust að marki. Hann hitti boltann þannig að hann sveigði frá hægri til vinstri í fjærhornið. Algjörlega óverjandi fyrir Aron í markinu.

Fyrirliðarnir að kljást.Vísir / Anton Brink

KR hélt boltanum meira það sem lifði af seinni hálfleik en náðu ekki að gera sér mat úr því og Stjarnan fór því inn í búningsklefann með forskotið. 

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri að því leiti að KR var með boltann meira en náðu ekki að skapa sér nógu afgerandi færi. Á 67. mínútu átti Benoný Breki þó skalla í slána eftir frábæra fyrirgjöf Kennie Chopart og tveimur mínútum seinna bjargaði Árni Snær Ólafsson Stjörnumönnum með frábæru en þó glæfralegu úthlaupi þegar Atli Sigurjónsson var að komast einn í gegn.

Úthlaup Árna Snæs var mjög gott og nauðsynlegtVísir / Anton Brink

Eftir það datt leikurinn aðeins niður þangað til að heimamenn gulltryggðu sigur sinn á 86. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Kennie Chopart sem braut á Adolfi Daða Birgissyni. Adolf var við það að komast framhjá Kennie sem setti löppina fyrir hann og ekkert annað í stöðunni en að dæma víti.

Emil Atlason tók vítið og það var enginn vafi á því að hann skoraði þrennu í þessum leik. Boltinn teygði ansi vel á netinu þegar hann söng í því eftir frábæra vítaspyrnu frá Emil sem er orðinn markahæstur í deildinni.

Emil Atlason tryggir sigur sinna manna á KRVísir / Anton Brink

Leikurinn leið undir lok og Stjörnumenn settu öll stigin í boltanpokann sinn og settu pokann í boltageymsluna. Mjög sannfærandi sigur sem er mikilvægur í baráttunni um að komast í Evrópukeppni á næsta ári.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn gerðu þetta virkilega fagmannlega í kvöld. Hleyptu KR-ingum ekki mjög nálægt sér og tóku færin sín vel. 

Hvað gekk illa?

KR gekk illa að brjóta niður varnarmúrinn og svo þegar færin létu á sér kræla þá nýttu þeir þau ekki. Þá gekk þeim illa að hemja Emil Atlason sem er mögulega besti framherji deildarinnar.

Bestir á vellinum?

Aftur er auðvelt að velja mann leiksins úr leik hjá Stjörnunni. Það er Emil Atlason sem er maður leiksins. Hann skoraði þrjú mörk og gæðin á mörkunum voru algjörlega frábær. 

Maður kvöldsins var hinsvegar Daníel Laxdal sem var að spila leik númer 500 fyrir Stjörnuna. Ekki skemmdi fyrir að hann stóð sína plikt eins og herforingi og stýrði sínum mönnum til sigurs.

Hvað næst?

Stjarnan er komið í fjórða sætið og sitja þeir þar einir. FH á þó leik inni og geta jafnað þá að stigum en Stjarnan er með betri markatölu og verða því í fjórða sæti þegar öll lið hafa spilað 20 leiki. Þeir fara norður í næstu umferð til að spila við KA. KR hins vegar fá Fylki í heimsókn og geta gulltryggt stöðu sína í efri helmingnum. Baráttan um Evrópusæti er ekki lokið.

Jökull: Sigrar hjá okkur út um allt

Jökull gat verið mjög ánægður með sína menn í kvöld.Vísir / Anton Brink

„Geggjaður leikur. Stórkostlegur sigur gegn mjög erfiðu liði. Vissum að þetta yrði erfitt en stuðningurinn var ótrúlegur“, sagði Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar strax að leik loknum gegn KR í kvöld.

Hvað var það samt sem gerði útslagið? Leikurinn var opinn í báða enda og hefði getað farið öðruvísi.

„Við nýttum færin. Það er stóri munurinn. Þeir fengu dauðafæri í stöðunni 2-1 þegar þeir skalla í slána. Þetta var hörkuleikur og ekki ósvipaður og maður átti von á. Þetta var skemmtilegt.“

Emil Atlason er heldur betur að rísa upp úr öskustónni eftir að hafa lent í erfiðum meiðslum undanfarin ár. Hvað getur Jörundur sagt um Emil?

„Hann er náttúrlega ótúrlegur karakter og liðsmaður. Það skemmtilega er að honum er alveg sama hver skorar mörkin en svo er það hann sem er oftast að skora. Fyrir mér er hann bestir framherjinn í deildinni og frábær maður. Skemmilegt að hann sé að koma til baka og enn skemmtilegra þegar hann verður kominn í alvöru stand.“

Árni Snær Ólafsson eignaðist sitt annað barn í dag og Daníel Laxdal spilaði sinn 500. leik og voru þeir heldur betur góðir í dag.

„Það eru sigrar hjá okkur út um allt og stuðningurinn og stemmingin í kringum Danna er ótrúleg. Hann er glaður í dag og við erum allir glaðir og þetta er allt frábært.“

Stefna Stjörnumenn á Evrópusæti?

„Ég er orðinn svo þreyttur á að tyggja sömu klisjuna. Það er ótrúlega skemmitilegur dagur í dag og menn eru spenntir að mæta í hádeginu á morgun.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira