Innlent

Var á sínum besta tíma en rankaði við sér í sjúkra­tjaldi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kristján var í góðum gír að hlaupa við Hörpuna þegar hann rankaði svo skyndilega við sér í sjúkratjaldi.
Kristján var í góðum gír að hlaupa við Hörpuna þegar hann rankaði svo skyndilega við sér í sjúkratjaldi.

Kristján Haf­þórs­son, stjórnandi Jákastsins, var í góðum gír í Reykja­víkur­mara­þoninu í gær og í þann mund að setja sinn besta tíma í hálf­mara­þoni þegar hann rankaði skyndi­lega við sér í sjúkra­tjaldi. Á­stæðan reyndist of­reynsla og of­þornun og flytja þurfti Kristján á Land­spítalann.

„Ég er eld­hress í dag en þetta var gjör­sam­lega galið í gær,“ segir Kristján í sam­tali við Vísi. Kristján heldur úti hlað­varps­þáttunum Jákastið og er lík­lega best þekktur fyrir enda­lausa já­kvæðni.

„Ég ætlaði mér bara að besta tímann minn eins og maður segir og þetta gekk glimrandi vel, ég var á undan mönnum sem voru að taka 1:28, sem er metið mitt, þannig að ég var í góðum gír. Svo var ég kominn á sau­tjánda kíló­metrann, við Hörpuna, sem var það síðasta sem ég man. Svo allt í einu ranka ég bara við mér í sjúkra­tjaldi, alveg gjör­sam­lega ruglaður.“

Kristján var í góðum gír þegar hann hélt út í hlaup í gærmorgun.

Kristján segir að sér hafi liðið eins og rúta hefði keyrt á sig. Hann hafi fengið vökva í æð og svo verið færður í sjúkra­bíl upp á Land­spítala, þar sem hann hafi dvalið þar til um níu­leytið í gær­kvöldi.

„Ég var alveg kol­ruglaður fyrst að reyna að átta mig á því sem var að gerast. En þetta er víti til varnaðar fyrir aðra, ég vökvaði mig greini­lega ekki nóg og borðaði kannski ekki alveg nógu vel og svona.“

Þakklátur viðbragðsaðilum

Kristján er reynslu­mikill hlaupari og hafði hlaupið hálf­mara­þon fjögur ár í röð. Hann hljóp líka í mið­nætur­hlaupi Suzuki í júní og fór þar hálf­mara­þon.

„Þannig að stundum heldur maður kannski að maður sé ó­sigrandi og að maður geti bara tekið For­rest Gump á þetta og hlaupið bara. Það er það sem maður lærir af þessu,“ segir Kristján hlæjandi.

Hann kveðst fyrst og fremst inni­lega þakk­látur við­brags­aðilum á vett­vangi mara­þonsins og á spítalanum. Hann hafi bara rankað við sér með síma og heyrnar­tól í vasanum í sjúkra­tjaldinu.

„Ég er bara svo þakk­látur og ég veit ekki einu sinni enn­þá hverjir það voru sem hlúðu að mér á svæðinu. Það er bara stórt takk frá mér, þið eruð bara dýr­lingar, fólkið í sjúkra­tjaldinu, sjúkra­flutninga­mennirnir og fólkið á spítalanum. Maður fær trú á mann­kyninu og áttar sig á því hversu gott heil­brigðis­kerfið okkar er, af því að ég aldrei farið í sjúkra­bíl áður. Maður er ekkert smá þakk­látur.“

Ertu eitt­hvað svekktur yfir því að hafa ekki náð að klára hlaupið?

„Auð­vitað er ég það, sér­stak­lega af því að ég held að ég hafi verið á mínum besta tíma þegar þetta gerðist. En það er ein­mitt kannski á­stæðan fyrir þessu, það var þessi of­keyrsla. En auð­vitað hefði maður frekar viljað eiga daginn með fjöl­skyldunni, konu og börnum niðri í bæ en fyrst þetta gerðist þá er þetta víti til varnaðar og eitt­hvað sem maður lærir mjög mikið af.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×