Innlent

Mikið ung­linga­fyllerí á Menningar­nótt

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Fimmtán ungmenni voru vistuð í athvarfi vegna ölvunar.
Fimmtán ungmenni voru vistuð í athvarfi vegna ölvunar. Kolbeinn Tumi

Fimmtán ungmenni voru flutt á athvarf á vegum Reykjavíkurborgar þar sem foreldrar komu og náðu í börn sín. Í nokkrum tilvikum var áfengi hellt niður sem tekið var af ungmennum undir lögaldri.

Þetta kemur fram í skýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir Menningarnótt.

Í skýrslunni kemur fram að mikið af ungmennum hafi verið í miðborginni eftir að dagskrá hátíðarinnar lauk klukkan 23:00 og voru að neyta áfengis. Þykir lögreglu það miður.

Þá gistu fjórtán einstaklingar fangageymslur, allt vegna minniháttar brota. Kemur fram að í öllum tilfellum hafi einstaklingarnir verið undir áhrifum áfengis og eða vímuefna. Voru fangageymslurnar á Hverfisgötu smekkfulllar eftir nóttina.

Sjö líkamsárásir voru framdar í miðborginni, allar eftir miðnætti og allar minniháttar. Aðeins einn af gerendum gisti fangageymslu þar sem hann var ekki viðræðuhæfur sökum ölvunarástands.

Blindfullur á rafhlaupahjóli

Alls komu 169 verkefni inn á borð lögreglu frá klukkan 17:00 til klukkan 7:00 í morgun.

Eitt slys varð á rafhlaupahjóli og þurfti ölvaður ökumaður að fara á slysadeild. Gat hann vart tjáð sig vegna ölvunar.

Nokkrir stútar voru teknir, meðal annars í Garðabæ og í Hafnarfirði.

Þá voru höfð afskipti af nokkrum vertum vegna brota á áfengislögum. Það er verið var að selja áfengi utandyra án leyfis.

Þrátt fyrir þessa upptalningu telur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að nóttin hafi gengið vel enda mikill fjöldi gesta í miðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×