Samkvæmt niðurstöðum Maskínu eru ríflega 14 prósent landsmanna neikvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum. Neikvæðnin hefur aukist verulega þar sem einungis um sex prósent voru sömu skoðunar í fyrra og árið þar á undan.
Fréttamaður fór á stúfana og spurði nokkra landsmenn hver skoðun þeirra væri í garð ferðamannaflaumsins. Ansi skiptar skoðanir voru meðal fólks.
„Mér finnst þetta vera komið í óefni með ferðamenn. Þetta er orðið eins og skrímsli sums staðar,“ sagði einn þeirra.
Ferðaþjónusta hafi farið hratt af stað
Fara þarf aftur til ferðamannaársins 2017 til þess að finna viðlíka neikvæðni en þá mældist hún í kringum tíu prósent. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ekki skrítið að viðhorfið sé heldur neikvæðara nú en síðustu tvö ár.

„Við erum búin að hafa hér tvö ár þar sem var mjög lítið af ferðamönnum, jafnvel nánast engir, og þegar þetta fer mjög hratt af stað þá sjáum við sömu áhrif þegar fjölgunin verður hröð eins og var hér á árunum 2016 og 2017. Þá var mjög mikil fjölgun á milli ára og þá jókst líka þetta almenna neikvæða viðhorf,“ segir Jóhannes Þór.
Áskoranir þurfi að taka alvarlega
Samfélagið standi sannarlega frammi fyrir ýmsum áskorunum í ferðaþjónustunni sem ekki megi líta fram hjá. Til að mynda gagnvart náttúrunni og ferðamannastöðunum og nefnir Jóhannes Þór Landmannalaugar og umræðuna um framtíðina þar sem dæmi. Það beri að taka alvarlega enda sé margt í húfi.
„Það skiptir okkur öll máli sem samfélag að þarna sé upplifun gestanna og gestgjafanna betri á næsta ári en heldur hún var á síðasta ári og betri eftir tíu ár heldur en hún var fyrir tíu árum,“ segir hann jafnframt.