Körfubolti

Ís­lensku strákarnir frá­bærir í loka­leiknum og rúlluðu upp Búlgörum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson var flottur í dag eins og fleiri í íslenska liðinu.
Elvar Már Friðriksson var flottur í dag eins og fleiri í íslenska liðinu. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann sannfærandi sautján stiga sigur á Búlgörum, 93-76, í lokaleik forkeppni Ólympíuleikana sem fór fram í Istanbul í Tyrklandi.

Báðar þjóðir voru búnar að tapa tveimur fyrstu leikjum sínum og áttu því ekki lengur möguleika á því að komast áfram í næstu umferð.

Íslensku strákarnir voru frábærir frá fyrstu mínútu leiksins og rúlluðu yfir andlaust búlgarskt landslið.

Þórir Þorbjarnarson átti mjög flottan leik og var stigahæstur með 17 stig og 80 prósent skotnýtingu á aðeins 15 mínútum.

Tryggvi Hlinason var með 14 stig og tók 8 fráköst en Elvar Már Friðriksson skoraði 13 stig.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel og vann fyrsta leikhlutann með fjórtán stigum, 27-13. Elvar Már Friðriksson skoraði níu stig á fyrstu sjö mínútunum og Sigtryggur Arnar Björnsson var með sex stig í fyrsta leikhlutanum.

Þórir Þorbjarnarson spilaði ekkert í fyrsta leiknum en skoraði níu stig á fyrstu fjórum mínútunum í öðrum leikhluta og var því orðinn stigahæstur í íslenska liðinu þrátt fyrir að koma síðastur inn í leikinn. Hilmar Henningsson átti líka góða innkomu í annan leikhlutann og skoraði þá átta stiga á stuttum tíma.

Íslenska liðið komst mest 21 stigi yfir í öðrum leikhluta og átján stigum yfir í hálfleik, 50-32. Frábær hálfleikur þar sem margir leikmenn voru að skila ekki síst af bekknum en alls fékk íslenska liðið 31 stig af bekknum í hálfleiknum.

Íslensku strákarnir skoruðu síðan átta fyrstu stig seinni hálfleiksins og voru komnir 24 stigum yfir, 56-32. Búlgararnir þurftu að taka leikhlé eftir aðeins eina og hálfa mínútu af leikhlutanum.

Íslenska liðið komst mest 27 stigum yfir en það munaði tuttugu stigum, 76-56, fyrir lokaleikhlutann. Fjórði leikinn var því algjört formsatriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×