Körfubolti

Callum Lawson genginn í raðir Tindastóls

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Callum Lawson er genginn í raðir Tindastóls frá Val.
Callum Lawson er genginn í raðir Tindastóls frá Val. Körfuknattleiksdeild Tindastóls

Enski körfuboltamaðurinn Callum Lawson er genginn í raðir Íslandsmeistara Tindastóls frá Valsmönnum.

Lawson hefur verið einn af betri leikmönnum Subway-deildarinnar undanfarin ár og varð hann meðal annars Íslandsmeistari með Valsmönnum á þar síðasta tímabili og einnig með Þór Þorlákshöfn árið áður.

Lawson spilaði stórt hlutverki í Valsliðinu á síðasta tímabili þegar liðið fór alla leið í úrslit Íslandsmótsins, en laut þar í lægra haldi gegn Tindastóli í rimmu sem fór alla leið í oddaleik.

Með Valsmönnum skilaði Lawson 14,9 stigum að meðaltali í leik á síðasta tímabili, ásamt því að taka 5,8 fráköst og gefa 2,0 stoðsendingar.

„Ég hef oft spilað á móti Tindastóli á síðustu árum og alltaf dáðst aðþessari miklu stemningu og stórkostlegu umgjörð sem er í kringum liðið. Það hefur verið mikil áskorun að mæta í Síkið og kljást við bæði frábæra leikmenn og einstakt andrúmsloft,“ segir Lawson í fréttatilkynningu Tindastóls.

„Úrslitarimman á milli okkar í Val og Tindastóls í vor er upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Nú mun ég njóta þess að vera með en ekki á móti öllu fjörinu á Sauðárkróki og ég hlakka mikið til að vinna bæði með Pavel og strákunum í liðinu að því verkefni að verja þann langþráða Íslandsmeistaratitil sem náðist í höfn sl. vor.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×