Innlent

Enginn gos­ó­rói mælst á svæðinu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Jarðskjálftamælir á Reykjanesskaga.
Jarðskjálftamælir á Reykjanesskaga. Vísir/Vilhelm

Hægt hefur á öflugri skjálftahrinu sem hófst í gærkvöldi suðvestur af Reykjanesskaga. Allt bendir til þess að um hefðbundna skjálftavirkni sé að ræða og hefur enginn gosórói mælst á svæðinu. 

Skjálftahrinan hófst klukkan rúmlega hálf átta í gærkvöldi og mældist stærsti skjálftinn 4,5 að stærð. Það hægði á hrinunni snemma í morgun en síðan þá hefur hún tekið örlítið við sér. Hún er þó ekki jafn kraftmikil og hún var í gærkvöldi.

Að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni, er algengt að hrinur með stórum skjálftum verði á þessu svæði suðvestur af Reykjanesskaga.

„Það hafa verið hrinur þarna, síðast 2022. Þá var 4,4 að stærð stærsti skjálftinn. Svo aftur 2019, þá var 4,7 og 2015 4,8. Þannig þetta er þekkt á þessu svæði og verður nokkuð reglulega,“ segir Lovísa.

Á svæðinu eru flekaskil og því er það hreyfing þar á milli sem veldur hrinunni. Lovísa segir allt benda til að virknin sé nokkuð hefðbundin í þetta sinn. Ekki séu miklar líkur á eldgosi á svæðinu.

„Það er alltaf möguleiki að það geti komið fyrir en eins og staðan er núna lítur þetta út fyrir að vera hefðbundin skjálftavirkni. Það er engin órói eða nein önnur merki sem við sjáum. En við bara fylgjumst alltaf vel með,“ segir Lovísa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×