Herforingjastjórnin sem rændi völdum 26. júlí fullyrðir að hún hafi „sannanir“ fyrir því að Bazoum hafi framið landráð og grafið undan öryggi landsins í samráði við erlenda samverkamenn. Amadou Abdramane, talsmaður herforingjanna, fullyrti að alþjóðleg áróðursherferð stæði yfir gegn stjórn þeirra sem væri ætlað að koma í veg fyrir friðsamlega lausn á ástandinu og réttlæta hernaðaríhlutun nágrannaríkjanna.
Það eru samskipti Bazoum við erlenda þjóðarleiðtoga og samtök sem valdaræningjarnir segja að hafi falið í sér landráð. Bazoum, sem er lýðræðislega kjörinn forseti Nígers, hefur verið í stofufangelsi í forsetahöllinni frá valdaráninu ásamt konu sinni og syni. Aðstæður þeirra eru sagðar bágbornar en herforingjastjórnin hafnar því.
Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) samþykkti í síðustu viku að hafa herlið tilbúið til að skarast í leikinn í Níger. Ekkert hefur þó verið ákveðið um hernaðaríhlutun í landinu. Herforingjastjórnin hefur neitað að taka á móti samninganefnd frá bandalaginu til þessa.