Íslenski boltinn

„Ég skammast mín svo mikið fyrir þetta“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari toppliðs Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari toppliðs Víkings. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Víkings Reykja­víkur, skammast sín fyrir að hafa misst stjórn á skapi sínu í leik Víkings gegn FH á dögunum. Hann kvíðir því á­vallt að sjá nafn sitt í fjöl­miðlum eftir slík at­vik og segir bíl­ferðina heim eftir leiki, þegar að svona at­vik koma upp, vera hörðustu refsinguna.

„Það er mjög mikið stress í gangi fyrir leiki, mikið undir og þess háttar. Stundum missir maður stjórn á skapinu og erfitt að út­skýra af hverju,“ sagði Arnar í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann var spurður spjörunum úr út í at­vik í leik FH og Víkings Reykja­víkur í Bestu deild karla í fót­bolta á dögunum. At­vik sem varð til þess að Arnar fékk að líta rauða spjaldið.

Arnar missti stjórn á skapi sínum í téðum leik um stundar­sakir. Hann hreytti ó­kvæðis­orðum í átt að Agli Guð­varði Guð­laugs­syni, að­stoðar­dómara í leiknum og fékk í kjöl­farið að líta rauða spjaldið. Hann gerði sig svo lík­legan til þess að kasta frá sér stól á leið sinni inn til búnings­her­bergja en lét það þó vera.

Bílferðin heim sé mesta refsingin

„Ég byrja hvern einasta leik með á­kveðna möntru í huga þess efnis að nú ætli ég að haga mér, nú ætli ég ekki að láta ein­hverja á­kveðnar á­kvarðanir fara í taugarnar á mér. Svo bara gerist eitt­hvað, eitt og eitt at­vik í þessum leikjum og ég held að þetta sé svona stress­faktor hjá mér sem lætur eld­fjallið gjósa.“

Arnar sættir sig við rauða spjaldið og segir það ekki hörðustu refsinguna þegar að svona at­vik koma upp

„Mesta refsingin fyrir mig er í rauninni bíl­ferðin heim eftir svona leiki. Ég kvíði svo fyrir því að horfa á þetta í upp­gjörs­þætti eða lesa um þetta í fjöl­miðlum. Ég skammast mín svo mikið fyrir þetta og það er ekkert grín. Ég kvíði svo fyrir því að sjá mig hegða mér eins og fá­viti en á sama tíma er það bara fín refsing fyrir mig. Á sama tíma hugsa ég líka mikið um greyið dómarana sem þurfa að þola þetta frá okkur.“

Hann telur að allir þjálfarar skammist sín þegar að svona at­vik eiga sér stað.

„Og á ein­hverjum tíma­punkti þarf að finna jafn­vægið á milli þess að sýna til­finningar og að haga sér ekki eins og al­gjör bjáni á hliðar­línunni líkt og ég gerði í Kapla­krika á dögunum. Af því að við viljum fá til­finningar frá þjálfurunum, það er gott sjón­varps­efni.“

Þakklátur Pablo Punyed

En er ekki líka gott fyrir leik­menn að hafa ást­ríðu­fullan þjálfara á hliðar­línunni? Þjálfara sem er líka í bar­áttunni.

„Jú, en þar skiptir þetta jafn­vægi svo miklu máli. Leik­menn vilja ekki að leið­togi sinn sé að missa kúlið á hliðar­línunni. Akkúrat í þessu at­viki í leik okkar í Kapla­krika á dögunum kemur einn af mínum reynslu­mestu leik­mönnum, Pablo Punyed, til mín og hann í rauninni róaði mig bara niður og gerði mér það ljóst að mínir leik­menn hefðu full­komna stjórn á hlutunum, væru alveg með þetta. Það var ó­trú­lega flott hjá Pablo að gera þetta.

Pablo Punyed, leikmaður Víkings ReykjavíkurVísir/Hulda Margrét

„Á fundi með leik­mönnum fyrir þennan til­tekna leik lagði ég mikla á­herslu á að við hefðum stjórn á öllum hlutum, það var held ég ein glæra á fundinum ein­göngu um það en svo fór sem fór,“ sagði Arnar hlæjandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×